144. löggjafarþing — 55. fundur,  22. jan. 2015.

úrskurður forseta.

[15:28]
Horfa

Valgerður Bjarnadóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Bent var á það hér áðan af lögfræðingi, sem er gjarn á að segja okkur til hér, og það er ágætt að einhver geri það, að rammaáætlun væri fyrst og fremst um það hvernig stjórnsýslan ætti að haga sér. Ég heyrði það alveg skýrt áðan og ég var mjög glöð að heyra það, að hæstv. umhverfisráðherra telur ekki tímabært að breyta þeirri tillögu sem þáverandi hæstv. umhverfisráðherra, forveri hennar, lagði fram í haust. Ég held að það mundi liðka bara fyrir öllu og létta andrúmsloftið hér á þinginu ef staðfest yrði að sú tillaga yrði tekin til meðferðar og afgreidd á eðlilegan hátt í hv. atvinnuveganefnd og að aðrar hugdettur, hvort heldur sem þær koma frá formanni nefndarinnar eða einhverjum öðrum, verði látnar bíða betri tíma og að þá verði farið með þær með formlegri hætti en gert hefur verið.