144. löggjafarþing — 55. fundur,  22. jan. 2015.

kosning níu manna og jafnmargra varamanna í stjórn Ríkisútvarpsins, fjölmiðils í almannaþágu, til eins árs, að viðhafðri hlutfallskosningu, skv. 9. gr. laga nr. 23/2013 um Ríkisútvarpið, fjölmiðil í almannaþágu.

[15:49]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Það er nauðsynlegt að fram fari leynileg atkvæðagreiðsla við kjör í stjórn Ríkisútvarpsins vegna þess að stjórnarmeirihlutinn braut hefðir sem gilt hafa svo lengi sem elstu menn muna, þ.e. hann gekk á bak samkomulagi sem gert var við forustumenn stjórnarflokkanna sumarið 2013 um fjölgun fulltrúa í stjórn RÚV sem átti að skila öllum stjórnarandstöðuflokkunum einum fulltrúa. Síðan hafa stjórnarflokkarnir beitt aflsmun og freistað þess að beita aflsmun. Það tókst ekki í fyrsta sinnið, það tókst í fyrra, til þess að tryggja sjálfum sér 2/3 hluta atkvæða í stjórn RÚV þó að baki þeim í þingsal sé einungis 51% landsmanna.

Ég vil því hvetja þingmenn stjórnarflokkanna til þess að virða það sem gilt hefur svo lengi sem elstu menn muna í þingsal, að menn standi við pólitísk samkomulög sem gefin eru þvert á flokka. Nú fá stjórnarþingmenn tækifæri til þess.