144. löggjafarþing — 55. fundur,  22. jan. 2015.

kosning níu manna og jafnmargra varamanna í stjórn Ríkisútvarpsins, fjölmiðils í almannaþágu, til eins árs, að viðhafðri hlutfallskosningu, skv. 9. gr. laga nr. 23/2013 um Ríkisútvarpið, fjölmiðil í almannaþágu.

[15:51]
Horfa

Róbert Marshall (Bf) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegur forseti. Það er sorglegt að til þess þurfi að koma að fara þurfi fram leynileg atkvæðagreiðsla í stjórn RÚV, að það skuli ekki vera mögulegt að gera samkomulag um sanngjarna skiptingu stjórnar og stjórnarandstöðu í níu manna stjórn þar sem stjórnararandstaðan hefur fjóra fulltrúa og stjórnarmeirihlutinn fimm. Nei, það verður að vera þannig að stjórnarmeirihlutinn hafi aukinn meiri hluta í stjórninni, því miður, vegna þess að það væri annars hægt að ljúka þessu máli í ágætu samkomulagi.

Rökin sem stjórnarflokkarnir fluttu fyrir því að breyta stjórn RÚV þannig að þar væru pólitískt skipaðir fulltrúar voru þau að stjórnin ætti að endurspegla þingbreiddina, meiri hluta og minni hluta á þingi og í stjórninni væru þannig eðlilegir fulltrúar þjóðarinnar.

Hvað er það sem síðan gerist þegar stjórnin tekur til starfa og varar t.d. stjórnvöld harkalega við þeim fyrirætlunum sem birtust í fjárlagafrumvarpi síðasta árs? (Forseti hringir.) Það er ekki hlustað á það.