144. löggjafarþing — 55. fundur,  22. jan. 2015.

kosning níu manna og jafnmargra varamanna í stjórn Ríkisútvarpsins, fjölmiðils í almannaþágu, til eins árs, að viðhafðri hlutfallskosningu, skv. 9. gr. laga nr. 23/2013 um Ríkisútvarpið, fjölmiðil í almannaþágu.

[15:57]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Í þingsköpum um kosningar í nefndir o.s.frv. og meðal annars í stjórn RÚV er þingmönnum heimilt að kalla eftir því að slík kosning skuli vera skrifleg. Ég spurði starfsmenn þingsins hvort hún skyldi vera leynileg í því tilviki og svo er. Spurningin hlýtur að vera, og forsetinn er ábyrgur fyrir framkvæmd þeirrar atkvæðagreiðslu: Ef kosningin er ekki leynileg, hvert er þá kæruferlið, hvað gerist? Við höfum horft á að þingmenn eru að sýna hver öðrum atkvæði sitt, þeir eru að brjóta lög um þingsköp við atkvæðagreiðsluna. Á þá ekki að tilkynna forseta það, þarf ekki að greiða atkvæði aftur? Eða er allt í lagi hér á Alþingi að brjóta lög um þingsköp þegar verið er að kjósa ef sú kosning á að vera leynileg?