144. löggjafarþing — 55. fundur,  22. jan. 2015.

kosning níu manna og jafnmargra varamanna í stjórn Ríkisútvarpsins, fjölmiðils í almannaþágu, til eins árs, að viðhafðri hlutfallskosningu, skv. 9. gr. laga nr. 23/2013 um Ríkisútvarpið, fjölmiðil í almannaþágu.

[16:00]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Þann 22. maí 2013 undirrituðu hæstv. fjármálaráðherra Bjarni Benediktsson og hæstv. forsætisráðherra Sigmundur Davíð Gunnlaugsson stjórnarsáttmála þar sem segir að ríkisstjórnin muni leitast við að virkja samtakamátt þjóðarinnar og vinna gegn því sundurlyndi og tortryggni sem einkennt hefur íslensk stjórnmál og umræðu í samfélaginu um nokkurt skeið.

Þeir fóru fljótlega í það að breyta ýmsu sem gert hafði verið á fyrra tímabili, þar á meðal lögum um Ríkisútvarpið. Til stóð að það yrðu sjö fulltrúar í stjórn Ríkisútvarpsins samkvæmt frumvarpi ráðherra en eftir samningaviðræður var ákveðið að fulltrúarnir yrðu níu þannig að allir stjórnarandstöðuflokkarnir hefðu sinn fulltrúa. Að þessu samkomulagi var staðið hér í þinginu og síðan var það þverbrotið, konur úr stjórnarliðinu gerðar að ómerkingum og niðurlægðar hér með óskemmtilegum hætti. Þetta eru svik, þetta ýtir undir sundurlyndi og tortryggni.

Ég hvet þann stjórnarþingmann (Forseti hringir.) sem hafði kjark í sér (Forseti hringir.) til að standa við samkomulagið (Forseti hringir.) að gera það einnig í dag.