144. löggjafarþing — 55. fundur,  22. jan. 2015.

kosning níu manna og jafnmargra varamanna í stjórn Ríkisútvarpsins, fjölmiðils í almannaþágu, til eins árs, að viðhafðri hlutfallskosningu, skv. 9. gr. laga nr. 23/2013 um Ríkisútvarpið, fjölmiðil í almannaþágu.

[16:01]
Horfa

Bjarkey Gunnarsdóttir (Vg) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Ég held að fyrstu mistökin hafi verið gerð þegar ákveðið var að gera stjórn RÚV aftur pólitíska. Ég held að það hafi verið gott verk sem fyrrverandi ríkisstjórn vann þegar hún setti þessa umtöluðu armslengd, m.a. frá fjölmiðlinum þannig að hann gæti starfað svolítið óháð pólitíkinni. En valdhrokinn lýsir sér hér með því að ríkisstjórnin þarf að hafa aukinn meiri hluta í þessari nefnd. Hvers vegna liggur nú svolítið á huldu, nema kannski til þess að leggja hana niður eins og hvíslað er hér reglulega, að ástæða sé til þess að gera það. (Gripið fram í: Hvíslað? Það er kallað.) Eða kallað á torgum.

Sem betur fer hefur stjórn Ríkisútvarpsins staðið í lappirnar gagnvart ríkisstjórninni. (Gripið fram í.) Nei. Það er hárrétt sem hv. þm. Sigríður Ingibjörg Ingadóttir sagði áðan og ég hef nokkrum sinnum farið með hér í ræðu, það er þetta með sundurlyndið sem (Forseti hringir.) ríkisstjórnin þykist ætla að standa gegn.(Forseti hringir.) Það hefur nú lýst sér m.a. með ákvörðun sem tekin var í morgun í(Forseti hringir.) í atvinnuveganefnd.