144. löggjafarþing — 55. fundur,  22. jan. 2015.

kosning níu manna og jafnmargra varamanna í stjórn Ríkisútvarpsins, fjölmiðils í almannaþágu, til eins árs, að viðhafðri hlutfallskosningu, skv. 9. gr. laga nr. 23/2013 um Ríkisútvarpið, fjölmiðil í almannaþágu.

[16:04]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegur forseti. Þetta er ekki flókið. Unnur Brá Konráðsdóttir, nefndarformaður Sjálfstæðisflokksins, lýsti því yfir í ræðustól Alþingis að samkomulag væri af hálfu Sjálfstæðisflokksins og Framsóknarflokksins við stjórnarandstöðuna um að Píratar fengju þennan eina mann. (Gripið fram í.) Orð skulu standa. Við höfum átt að venjast því undir forverum Bjarna Benediktssonar þessa að slíkar yfirlýsingar af hálfu Sjálfstæðisflokksins héldu, að það mætti treysta yfirlýsingum Sjálfstæðisflokksins og samningum sem handsalaðir eru við hann. (Gripið fram í.) Það þarf bara einn þingmann og þeir þurfa ekki að sýna miðana sína til þess að sjá til þess að orð Sjálfstæðisflokksins haldi, að samningar standi og að hér sé skipt eins og lýst var yfir í ræðustólnum.

Ég minni á það að það er engin skylda í stjórnarmeirihlutanum að greiða allir atkvæði eins. Þingmenn Sjálfstæðisflokksins hafa ekkert verið bundnir af því að greiða atkvæði með skuldatillögum Framsóknarflokksins. Þingmenn Framsóknarflokksins hafa ekkert verið bundnir af því að greiða atkvæði með matarskatti Bjarna Benediktssonar. Það er augljóst af öllu að þingmönnum stjórnarflokkanna er frjálst að fara að sannfæringu sinni. (Forseti hringir.) Það þarf bara einn.