144. löggjafarþing — 55. fundur,  22. jan. 2015.

kosning níu manna og jafnmargra varamanna í stjórn Ríkisútvarpsins, fjölmiðils í almannaþágu, til eins árs, að viðhafðri hlutfallskosningu, skv. 9. gr. laga nr. 23/2013 um Ríkisútvarpið, fjölmiðil í almannaþágu.

[16:16]
Horfa

Björn Valur Gíslason (Vg) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Mig langar til að vitna, með leyfi forseta, í orð hv. þm. Unnar Brár Konráðsdóttur frá 3. júlí 2013 þegar hún sagði í þessum ræðustól:

„Hæstv. forseti. Mig langaði í lok umræðunnar um þetta mál, um RÚV, að koma örstutt upp til að fara aðeins yfir þau helstu atriði sem mikilvægt er að menn hafi í huga í atkvæðagreiðslu um þetta mál. Það er rétt að fram hafa komið breytingartillögur.“ — Og hv. þingmaður rekur tvær breytingartillögur, annars vegar um það að fulltrúi starfsmanna eigi að eiga sæti í stjórn og síðan segir, með leyfi forseta:

„Þá eru hér jafnframt tvær breytingartillögur sem fela í sér, og eru í raun um sama atriði, að í stað þess að sjö menn verði kjörnir í stjórnina verði þeir níu. Mig langar að taka fram hér að það er samkomulag um að það sé fjölgað en hlutföllin verði þó þau sömu þannig að stjórnarflokkarnir skipi fimm en stjórnarandstaðan fjóra. Þetta er hugsunin á bak við það ákvæði, að reyna að ná meiri breidd inn í stjórnina.“

Það er þetta samkomulag (Forseti hringir.) sem hv. þm. Unnur Brá Konráðsdóttir (Forseti hringir.) flutti þinginu hér þann 3. júlí 2013 (Forseti hringir.) sem verið er að brjóta núna.