144. löggjafarþing — 55. fundur,  22. jan. 2015.

kosning níu manna og jafnmargra varamanna í stjórn Ríkisútvarpsins, fjölmiðils í almannaþágu, til eins árs, að viðhafðri hlutfallskosningu, skv. 9. gr. laga nr. 23/2013 um Ríkisútvarpið, fjölmiðil í almannaþágu.

[16:18]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Það er svolítið sérstakt að heyra hv. stjórnarandstæðinga tala hér. Nú er hv. þm. Unnur Brá Konráðsdóttir búin að fara nákvæmlega yfir atburðarásina, búin að fara yfir það að hún fékk afsökunarbeiðni vegna þess að það var ákveðinn misskilningur á ferðinni en samt sem áður virðist vera einhver — ég veit ekki hvaða orð á að nota en við getum orðað það þannig að stjórnarandstæðingum leiðist ekki að koma hér upp og segja hvað eftir annað að viðkomandi hv. þingmenn hafi verið ómerkir orða sinna.

Síðan er annað, það er gert tortryggilegt að það sé vel mannað í atkvæðagreiðslu. Hv. þingmaður stjórnarandstöðunnar sagði að það væri hreint og beint óhugnanlegt. (Gripið fram í: Hvers konar eiginlega …?) Ég lít hér yfir salinn, það er afskaplega vel mætt af hv. stjórnarandstöðu, nema hvað, það á auðvitað að mæta í atkvæðagreiðslu. Er það líka óhugnanlegt (KaJúl: Farðu rétt með einu sinni.) að sjá svo marga hv. þingmenn (Gripið fram í.) stjórnarandstöðunnar hér? Ég tel svo ekki vera, mér finnst alveg til fyrirmyndar (Gripið fram í.) að hv. þingmenn (Forseti hringir.) stjórnarandstöðunnar mæti svona vel, (Gripið fram í.) bara til fyrirmyndar.