144. löggjafarþing — 55. fundur,  22. jan. 2015.

kosning níu manna og jafnmargra varamanna í stjórn Ríkisútvarpsins, fjölmiðils í almannaþágu, til eins árs, að viðhafðri hlutfallskosningu, skv. 9. gr. laga nr. 23/2013 um Ríkisútvarpið, fjölmiðil í almannaþágu.

[16:19]
Horfa

Björn Valur Gíslason (Vg) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegur forseti. Í umræðunum sem fóru fram hér í fyrri hluta júlímánaðar 2013 sagði núverandi þingflokksformaður Sjálfstæðisflokksins, hv. þm. Ragnheiður Ríkharðsdóttir, eftirfarandi:

„Ég ætla fyrst og síðast að biðja samherja minn, Unni Brá Konráðsdóttur, afsökunar á því að ég skuli með þessum hætti hafa fært henni boð sem aðrir tala síðan um og gera hana að ósannindamanni í pontu. Fyrst og síðast bið ég hv. þm. Unni Brá Konráðsdóttur afsökunar á því.

Mér þykir leiður þessi misskilningur. Ég ræddi hann á þingflokksformannafundi í morgun og get litlu um hann breytt. Ég bið jafnframt aðra þingflokksformenn sem ég ræddi við um þetta mál afsökunar á þeim orðum mínum að fyrir lægi samkomulag sem ekki var fyrir hendi.“

Á sama fundi, örfáum mínútum fyrr, sagði þáverandi hv. þm. Sigrún Magnúsdóttir, núverandi hæstv. ráðherra, með leyfi forseta:

„Sú sem hér stendur taldi líklegt að skiptingin yrði fimm frá stjórnarflokkunum og fjórir frá stjórnarandstöðunni. Þessar upplýsingar byggðust á misskilningi …“ (Forseti hringir.) Hún baðst afsökunar á því.

Hérna hef ég vitnað í þrjá þingmenn, þar af einn núverandi ráðherra, (Forseti hringir.) sem staðfesta svo ekki verði hafið yfir nokkurn vafa að það er verið að brjóta samkomulag (Forseti hringir.) sem gert var.