144. löggjafarþing — 55. fundur,  22. jan. 2015.

kosning níu manna og jafnmargra varamanna í stjórn Ríkisútvarpsins, fjölmiðils í almannaþágu, til eins árs, að viðhafðri hlutfallskosningu, skv. 9. gr. laga nr. 23/2013 um Ríkisútvarpið, fjölmiðil í almannaþágu.

[16:22]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Ég held að það sé ástæða til að undirstrika að menn voru eðli málsins samkvæmt mjög grandalausir um að þetta samkomulag yrði svikið vegna þess að það byggir í sjálfu sér á langri hefð í þinginu um að greiða götu þess að allir þingflokkar og öll sjónarmið séu við borðið á mörgum mikilvægum vígstöðvum. Þingsagan geymir fjölmörg dæmi um það að menn hafa gert breytingar á nefndarskipan, menn hafa fjölgað í nefndum til að tryggja minni eða minnstu þingflokkunum aðild. (Gripið fram í.) Þannig var til að mynda gjarnan fjölgað í fjárlaganefnd þegar litlir þingflokkar höfðu ekki afl til að fá þar inn menn. Dæmi um það er tími Kvennalistans á þingi (Gripið fram í.) þannig að oft hafa menn með þessum lýðræðislegu rökum séð mikilvægi þess að í vissum tilvikum væri gott, heppilegt og sanngjarnt að allir þingflokkar ættu sína fulltrúa.

Ég er skelfist ekkert þá birtingarmynd stjórnarflokkanna sem er fyrir framan okkur. Ég vorkenni formönnum stjórnarflokkanna. (Forseti hringir.) Mér finnst svo átakanleg birtingarmynd (Forseti hringir.) á pólitískri smæð þeirra og (Forseti hringir.) vanmætti að geta ekki …