144. löggjafarþing — 55. fundur,  22. jan. 2015.

kosning níu manna og jafnmargra varamanna í stjórn Ríkisútvarpsins, fjölmiðils í almannaþágu, til eins árs, að viðhafðri hlutfallskosningu, skv. 9. gr. laga nr. 23/2013 um Ríkisútvarpið, fjölmiðil í almannaþágu.

[16:25]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Hæstv. forsætisráðherra hefur ekki séð ástæðu til að koma í ræðustól og gera grein fyrir því af hverju Framsóknarflokkurinn metur ekki fulltrúalýðræðið meira en hann gerir. Af hverju var ekki staðið við það samkomulag sem var gert á sínum tíma við stjórnarandstöðuna? Mér finnst hann skulda þjóðinni það að koma í ræðustól, vera ekki að skríkja eitthvað úr sæti sínu heldur gera þjóðinni grein fyrir því af hverju í ósköpunum fulltrúar á Alþingi eigi ekki að hafa fulltrúa í almenningsútvarpi landsins. Þetta er útvarp allra landsmanna, almannaþjónusta, öryggistæki, og ég skil ekki — er valdajafnvægið svona dýrmætt að menn ganga á bak orða sinna og þurfa að tryggja þetta ógnarjafnvægi Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks í stjórn Ríkisútvarpsins? Er samkomulagið á milli flokkanna ekki betra en svo að það þarf að (Forseti hringir.) verja það á öllum vígstöðvum? (Forseti hringir.) Hvað á þessi stjórn að gera, (Forseti hringir.) hvað er hæstv. forsætisráðherra hræddur um að gerist þar?