144. löggjafarþing — 55. fundur,  22. jan. 2015.

kosning níu manna og jafnmargra varamanna í stjórn Ríkisútvarpsins, fjölmiðils í almannaþágu, til eins árs, að viðhafðri hlutfallskosningu, skv. 9. gr. laga nr. 23/2013 um Ríkisútvarpið, fjölmiðil í almannaþágu.

[16:26]
Horfa

Bjarkey Gunnarsdóttir (Vg) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Við erum búin að ræða þetta vel, þetta er í þriðja sinn sem við kjósum þessa stjórn og ríkisstjórnin er ekki tilbúin að gefa eftir. Það er áhugavert að lesa í einni atkvæðagreiðslunni viðbrögð hæstv. fjármálaráðherra við þessu og þá er ég að horfa til þess að við erum að tala um hvort Píratar fái fulltrúa. Fjármálaráðherra sagði, með leyfi forseti:

„Fyrir fjórum árum síðan komu hér saman Samfylkingin og Vinstri grænir og kölluðu til liðs við sig nýkjörna þingmenn Hreyfingarinnar sem þá voru í stjórnarandstöðu. Til hvers? Til að lágmarka hlut Sjálfstæðisflokksins og Framsóknarflokksins í öllum þingnefndum, í öllu alþjóðlegu starfi, út allt kjörtímabilið í fjögur ár.“

Ég velti fyrir mér hvort Sjálfstæðisflokknum og Framsóknarflokknum sé illa við að litlir flokkar fái tækifæri, sem þeir annars fá ekki, eins og hér er greinilega verið að gera. Það er verið að útiloka minnsta flokkinn á þingi frá því að hafa sinn talsmann og sína rödd (Forseti hringir.) í Ríkisútvarpinu, almannamiðlinum. Hvers vegna er það? (Forseti hringir.) Hvað gæti gerst sem skelfir ríkisstjórn (Forseti hringir.) Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks með þessum hætti?