144. löggjafarþing — 55. fundur,  22. jan. 2015.

Stjórnarráð Íslands.

434. mál
[18:20]
Horfa

Katrín Júlíusdóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Núna þegar við erum komin með ríkisfjármálin á rétt ról er lag að gera akkúrat það sem við erum að kasta á milli okkar hér, að fara yfir sviðið í heild, fara yfir hvar hið opinbera er með starfsemi um land allt, öll ráðuneyti og hafa allt undir, skoða faglega hvar hægt sé að styrkja starfsemi stofnunarinnar með tilfærslu starfsmanna eða með því að styrkja hana á ákveðnum stöðum um landið og horfa á heildarmyndina en setja ekki jafn mikilvæga stofnun og Fiskistofu í uppnám til þess eins að sanna eitthvert mál eða sýna fram á að maður geti eitthvað sem maður hefur lofað. Það er ekki þannig sem við stjórnmálamenn eigum að standa við kosningaloforð okkar um það til dæmis að styrkja landsbyggðina og byggðir um land allt. Það er ekki svona. Það er alla vega ekki mín hugmynd um það hvernig við eigum að standa við orð okkar heldur eigum við að reyna að gera það eins faglega og mögulegt er. Það er algjörlega ljóst að það var ekki gert í þessu tilfelli.

Þetta samtal okkar hefur eiginlega kveikt í mér hvað varðar það að mjög áhugavert væri að sjá tölur um til að mynda Akureyri, hjá hvaða stofnunum hefur raunverulega dregið úr starfsemi á sama tíma og þessi umræða hefur átt sér stað. Það væri verulega áhugavert og sýnir hvað 1. gr. þessa frumvarps hér, ég ætla ekki að segja að hún sé hættuleg af því það er stórt orð en hvað hún getur orðið skaðleg ef menn gæta sín ekki á því að byggja ákvörðun sína á faglegum grunni. Það þarf að vera öryggisventill þegar kemur að svona ákvarðanatöku, af því við höfum dæmi um að hann hafi þurft.