144. löggjafarþing — 55. fundur,  22. jan. 2015.

Stjórnarráð Íslands.

434. mál
[18:43]
Horfa

Valgerður Bjarnadóttir (Sf) (andsvar):

Forseti. Ég er ekki þeirrar skoðunar að allar stofnanir eigi að vera endilega í Reykjavík. En það má líka vel vera að það sé kannski of þungt í vöfum, en ég er alveg tilbúin til að skoða það, þetta eru samt stórar stofnanir, t.d. eins og með Fiskistofu og aðrar, að það eigi beinlínis að ákveða í lögum hvar þær eiga að vera. Mér finnst hv. þingmaður mjög kurteis þegar hann segir að óheppilega sé að þessu staðið. Ég mundi nú segja að þetta sé bara flumbrugangur og óþolandi og ekkert óheppilegt við það.

Jú, ég gæti ábyggilega samþykkt ef það væri gert með góðum undirbúningi og menn vissu hverjar leikreglurnar væru við það að flytja stofnanir á milli landshluta, þá væri ég ábyggilega alveg tilbúin til að samþykkja slíkt. En mér finnst líka þurfa að hugsa um fólkið sem vinnur á þeim stöðum, fólk með fjölskyldu, með börn. Það þarf gífurlega mikill og góður undirbúningur að fara fram áður en slík ákvörðun yrði tekin og góður fyrirvari í tíma líka þannig að fólk áttaði sig á hvað biði þess á næstunni.