144. löggjafarþing — 55. fundur,  22. jan. 2015.

Stjórnarráð Íslands.

434. mál
[18:57]
Horfa

Valgerður Bjarnadóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Fyrst til að nefna þetta með stjórnsýsluna og ráðuneytin. Ég verð að segja það hreint eins og er að ég átta mig ekki alveg á hvernig þetta virkaði með iðnaðarráðuneytið og viðskiptaráðuneytið, sem var tekið út úr ekki mjög stóru ráðuneyti; ég hef einhvern veginn á tilfinningunni að það hafi mikið til orðið vegna þess að einhverjir áttu að fá ráðherrastóla og aðrir ekki.

Þegar stærri ráðuneytin, innanríkisráðuneytið og velferðarráðuneytið, voru sameinuð og gerð svona stór lá ljós fyrir skörun milli verkefna, kannski var það líka gert til að setja upp deild og þá sérstaklega við stjórnsýsluverkefnin. Ég vil segja almennt að þetta þarf allt að skoða mjög vel.

Ég er á annarri línu en hv. þingmaður með starfsmennina. Ég er í grunninn sammála því að það á að auglýsa störf sem eru til langframa ef það er hægt. Ég er á hinn bóginn tilbúin að fallast á að ef starf er fært frá einni stofnun yfir í aðra sé annað starfið auglýst. Ég er þeirrar skoðunar að það sé alveg óhætt að auka svolítið hreyfanleika starfsfólks innan stofnana og Stjórnarráðsins. Það er mín skoðun.