144. löggjafarþing — 56. fundur,  26. jan. 2015.

siðareglur í stjórnsýslunni.

[15:09]
Horfa

Valgerður Bjarnadóttir (Sf):

Forseti. Í áliti umboðsmanns, sem kynnt var á föstudaginn, komu fram nokkur tilmæli um umbætur í stjórnsýslunni sem gætu varnað því að viðlíka atburðir endurtaki sig. Eitt af þeim atriðum sem umboðsmaður nefnir í áliti sínu er um siðareglur ríkisstjórnarinnar. Hann hafði reyndar skrifað hæstv. forsætisráðherra um það fyrr á síðasta ári og fékk frekar hvumpin svör frá ráðherranum, ef svo mætti að orði komast. Þar var vísað til siðareglna fyrri ríkisstjórnar og látið í það skína að þær giltu á einhvern hátt núna. Nú hefur umboðsmaður hins vegar fært rök fyrir því að sá skilningur standist ekki stjórnarráðslögin auk þess sem það sé tekið fram í reglunum að þær gildi út starfstíma þáverandi ríkisstjórnar, ríkisstjórnar Jóhönnu Sigurðardóttur sem lét af störfum 22. maí 2013.

Virðulegi forseti. Auðvitað er mér ljóst að ekki er langt síðan umboðsmaður gaf út álit sitt en engu að síður langar mig að spyrja hæstv. forsætisráðherra hvort hann hyggist bregðast við þessum tilmælum þó að það hafi ekki verið gert nú þegar, og þá kannski ekki síst í ljósi þess ætti hann að geta svarað. Í bréfinu, þessu hvumpna bréfi frá 15. ágúst, segir hann að hugsanlegar breytingar á reglunum hafi komið til umræðu í ríkisstjórn og ekki sé ólíklegt að ráðist verði í einhverjar breytingar á þeim.

Það er sem sagt ljóst að engar siðareglur eru í gildi fyrir ríkisstjórnina og mig langar til að spyrja hæstv. forsætisráðherra hvort hann hyggist ekki taka á þeim ágalla.