144. löggjafarþing — 56. fundur,  26. jan. 2015.

lærdómur af lekamálinu.

[15:28]
Horfa

Björn Valur Gíslason (Vg):

Forseti. Í haust sagði hæstv. forsætisráðherra um lekamálið að það væri hið leiðinlegasta mál, sem það auðvitað var fyrir flesta. Hann lýsti því jafnframt yfir, í fréttaviðtali við Ríkisútvarpið 12. nóvember, að hann styddi ráðherrann til áframhaldandi setu og sagði, með leyfi forseta, orðrétt:

„Hún er á margan hátt fórnarlamb í þessu máli. Hins vegar virðist liggja ljóst fyrir að hún hafi ekki haft aðkomu að þessu máli né vitneskju …“

Nú vitum við að þetta er rangt, þ.e. það liggur fyrir að þetta var röng fullyrðing hjá hæstv. forsætisráðherra og hann getur ekki staðið við hana í dag. Látum það liggja á milli hluta. Forsætisráðherrann gagnrýndi nokkrum dögum síðar, þegar hæstv. fyrrverandi ráðherra hafði sagt af sér embætti, þjóðina fyrir umræðuhefðina sem hæstv. forsætisráðherra taldi að einkenndist meira af hatri en rökræðum og sú hlið málsins væri afar dökk. Með leyfi forseta, sagði hæstv. ráðherra í viðtali við Morgunblaðið:

„Ég held að það sé ástæða fyrir alla til þess að hafa áhyggjur af því hvernig þjóðfélagsumræðan hefur þróast. Hún er auðvitað afleiðing af ákveðnum tíðaranda sem hefur verið ríkjandi undanfarin ár. En sá tíðarandi er ekki til þess fallinn að byggja upp og gera samfélagið betra.“

Hann segir að það þurfi meira af rökræðu og minna af hatri og segir í lokin, eða yfirskrift fréttarinnar er sú: „Niðurstaða fréttarinnar er sú að þjóðin þarf að læra af þessu máli.“

Nú spyr ég hæstv. ráðherra: Hvað telur hæstv. ráðherra að þjóðin þurfi að læra af málinu nú þegar niðurstaðan liggur fyrir? Hvað ráðleggur hæstv. forsætisráðherra þjóðinni að læra af þeim niðurstöðum sem nú liggja fyrir? Hvernig á þjóðin að bregðast við?