144. löggjafarþing — 56. fundur,  26. jan. 2015.

svar við fyrirspurn.

[15:34]
Horfa

Björn Valur Gíslason (Vg):

Virðulegur forseti. Þann 20. október 2014 lagði ég fram skriflega fyrirspurn til fjármálaráðherra um ráðstöfun 80 milljarða kr. í svokallaða leiðréttingu, stóru millifærsluna. Ég fékk svar við þeirri fyrirspurn tæpum tveimur mánuðum síðar. Í svarinu fólst ekkert svar, þ.e. að spurningunni yrði ekki svarað heldur yrði vísað til skýrslu sem á að koma fram einhvern tíma síðar á árinu.

Við það get ég ekki sætt mig og setti mig í samband við virðulegan forseta til að leita hjálpar við að kreista svar út úr fjármála- og efnahagsráðherra. Það svar er ekki enn þá komið þrátt fyrir ítrekaðar beiðnir og hef ég því ákveðið að leita réttar míns til að krefja ráðherrann um að gegna skyldum sínum og svara fyrirspurnum sem fyrir hann eru lagðar. Það verður þá gert samkvæmt þeim leiðum sem mér eru færar utan þings.