144. löggjafarþing — 56. fundur,  26. jan. 2015.

svar við fyrirspurn.

[15:35]
Horfa

Forseti (Einar K. Guðfinnsson):

Þetta mál var tekið hér upp í ræðustól Alþingis og sömuleiðis á fundi forsætisnefndar Alþingis á fundi þingflokksformanna. Forseti brást þannig við að hafa samband við ráðuneytið sem svaraði því til að farið yrði í það að svara þessum fyrirspurnum, sem eru þrjár talsins, með fyllri hætti en gert hafði verið. Ætlunin var sú og ég hafði vonast til þess að hægt yrði að dreifa því svari við upphaf þings eftir áramótin. Svo varð ekki. Forseti hefur sömuleiðis verið í sambandi við fjármálaráðuneytið í þessum mánuði og hefur fengið þau svör nýjust, sem greint var frá á fundi þingflokksformanna nú fyrr í dag, að þess væri að vænta að þessi svör sem hv. þingmaður hefur hér kallað eftir litu dagsins ljós nú um miðja vikuna.