144. löggjafarþing — 56. fundur,  26. jan. 2015.

vopnaburður og valdbeitingarheimildir lögreglunnar.

[15:49]
Horfa

Líneik Anna Sævarsdóttir (F):

Virðulegi forseti. Ég fagna þeirri umræðu sem hér fer fram í dag. Ég hef átt kost á að kynna mér vopnamál lögreglunnar í gegnum starfið í allsherjar- og menntamálanefnd á haustþinginu. Ég er ein af þeim sem lengst af hef viljað standa í þeirri trú að Ísland sé að mestu vopnlaust land þótt það sé í raun langt frá raunveruleikanum. Í þeirri afstöðu hefur falist og felst ákveðinn tvískinnungur því ég hef samt alltaf treyst á það að ef ég lendi í því að keyra á hreindýr eða kind geti ég kallað á lögregluna sem komi hratt með byssu ef á þarf að halda. Ég hef líka upplifað að vera ein af fáum vopnlausum farþegum á leið út á land með flugi fyrir rjúpnaveiðihelgar á haustin. Staðreyndin er að byssueign á hvern íbúa hér á landi er mikil á alþjóðlegan mælikvarða samkvæmt tölfræðilegum upplýsingum. Við höfum hins vegar borið gæfu til þess að líta þannig á að byssur eigi ekki að vera á almannafæri, hvorki hjá almenningi né á vegum lögreglunnar.

Í mínum huga er alveg ljóst að lögreglan þarf að hafa yfir vopnum að ráða og með það á ekki að pukra. Mitt mat er að það sé öllum til góða að reglur um vopnaeign og vopnanotkun, þ.e. valdbeitingarheimildir lögreglu, séu opinberar. Ef reglur um valdbeitingu lögreglunnar væru endurskoðaðar og í kjölfarið gerðar opinberar er ekki ólíklegt að einstök embætti þyrftu síðan að setja sér nánari starfsreglur miðað við aðstæður á hverjum stað. Hugsanlega gæti sá hluti reglnanna þurft að vera lokaður, ég er þó ekki viss. Ég kem nánar inn á þessi mál í seinni ræðu, virðulegi forseti.