144. löggjafarþing — 56. fundur,  26. jan. 2015.

vopnaburður og valdbeitingarheimildir lögreglunnar.

[16:03]
Horfa

Líneik Anna Sævarsdóttir (F):

Virðulegi forseti. Af umræðu haustsins liggur það fyrir að núverandi vopnaeign lögreglunnar er ekki endilega sú heppilegasta. Þegar á heildina er litið mætti segja að vopnin væru sundurleitt safn ólíkra vopna frá ólíkum tímum. Heppilegra væri að reyna að samrýma búnaðinn á landsvísu. En ég vara við því að þörf lögreglu fyrir vopn sé metin eða kynnt í ljósi sérstakrar ógnar eða í formi hræðsluáróðurs vegna tiltekinna atburða. Mat á þörf lögreglunnar fyrir vopn þarf að byggjast á fjölbreyttum verkefnum lögreglunnar og aðstöðu á hverju svæði fyrir sig.

Um vopnaöflun lögreglunnar er það að segja að mikilvægt er að hún byggist fyrst og fremst á faglegum sjónarmiðum og fari eftir formlegum leiðum. Mikilvægt er að lögreglan setji sér skýra verkferla um ákvörðunartöku á þessu sviði og sé um eðlisbreytingar á búnaði að ræða séu þær breytingar ræddar á breiðari grunni.

Virðulegi forseti. Svo að ég dragi þetta saman: Á Íslandi er mikið af byssum miðað við fjölda íbúa. Lögreglan þarf að hafa yfir vopnum að ráða. Um meðferð vopnanna þurfa að gilda reglur og þær reglur ættu að vera opinberar. Það skiptir máli að vopnin séu þau sem best henta og vopnaöflun þarf að fara eftir formlegum leiðum. Vopnin ættu sem sagt ekki að vera sýnileg en upplýsingar um að þau séu til staðar og hvernig unnið er með þau ættu að vera opinberar. Þannig getur okkur tekist að skapa grundvöll að áframhaldandi trausti til lögreglunnar.