144. löggjafarþing — 56. fundur,  26. jan. 2015.

vopnaburður og valdbeitingarheimildir lögreglunnar.

[16:09]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þingmönnum og hæstv. innanríkisráðherra fyrir afskaplega gagnleg og góð viðbrögð við þessari umræðu. Ef ég skil hæstv. innanríkisráðherra rétt þá er litið jákvætt til þess að opna þessar reglur en þó liggur fyrir að reglurnar voru ekki samdar með hliðsjón af því að þær yrðu opinberar og því er eðlilegt að endurskoða þær í samræmi við það.

Sá sem hér stendur hefur ekkert á móti því að ýmislegt í skipulagi lögreglunnar sé leynilegt, það er sjálfsagt. Það sem er lykilatriði í þessu öllu saman er það að borgarar landsins eigi rétt á að vita hvar valdmörk yfirvalda liggja og þeir vita það ekki eins og er. Eins og hv. 9. þm. Suðurk. kom inn á hér áðan þá er hlutverk lögreglunnar að tryggja réttaröryggi borgaranna og öryggi þeirra en líka að vernda sitt eigið öryggi. Þar kemur að spurningunni um meðalhóf sem er ekki endilega borgurunum ljós. Því er mjög mikilvægt að hægt sé að varpa á það ljósi með því að hafa þessar reglur opinberar.

Eitt sem ég tek eftir í þessari annars mjög svo jákvæðu umræðu er að enn er staðreyndaágreiningur um málið til staðar hér á hv. Alþingi. Það er til dæmis ekki ljóst hvernig fara átti með þessar byssur sem voru ræddar hér haustið 2014. Á sama tíma og fullyrt er að engu fyrirkomulagi sé verið að breyta, þá er réttlætt að breyta því. Á sama tíma og því er hafnað að lögreglumenn séu almennt vopnaðir, er það réttlætt að þeir séu almennt vopnaðir. Það er sá hluti umræðunnar sem þvælist kannski hvað mest fyrir borgurum landsins, þ.e. að á sama tíma og einhverju er hafnað er það réttlætt og þá umræðu er ekki hægt að útkljá nema staðreyndirnar liggi fyrir.

Eins og hv. 9. þm. Suðurk. kom réttilega inn á áðan þá skiptir máli hvernig umræðan fer fram. Hún þarf að byggja á réttum staðreyndum eins og hv. þingmaður sagði, það er hárrétt. Fáum staðreyndirnar á hreint.

Að lokum legg ég til að fundir fastanefnda Alþingis verði að jafnaði opnir.