144. löggjafarþing — 56. fundur,  26. jan. 2015.

aðgengi að fjárhagsupplýsingum ríkisins.

381. mál
[16:17]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Herra forseti. Vorið 2013 starfaði starfshópur á vegum forsætisráðuneytis og fjármála- og efnahagsráðuneytis að því að gera upplýsingar úr bókhaldi ríkisins aðgengilegar almenningi samkvæmt viðmiðum um opinber gögn. Hópurinn vann með gögn frá Fjársýslu ríkisins og var ákveðið að gögnin sem fram til þess höfðu komið fyrir sjónir fárra yrðu hér eftir birt og uppfærð á nýju vefsvæði til framtíðar fyrir opin gögn á vefnum island.is undir vefslóðinni opingogn.is.

Gögnin sem ákveðið var að birta snertu árshluta- og mánaðaruppgjör ríkissjóðs. Þau voru birt á hrágagnaformi og notast við CSV-skráarsnið. Það eru aðgengilegar skrár þar sem gildi eru aðskilin með kommum og hægt er að opna þær í öllum helstu gagnavinnsluforritum. Starfi hópsins lauk með því að ákveðið var að fara að tillögu um að birta gagnasöfnin á opingogn.is. Frá þeim tíma hefur verið unnið að því í samstarfi ráðuneytisins, Þjóðskrár og Fjársýslu ríkisins að uppfæra gögnin reglulega á vefnum. Þarna er verið að vinna að þessum málum í fyrsta sinn. Í ferlinu hafa komið upp hnökrar en unnið hefur verið að því að leysa þá. Nú er þetta á vefnum sem aðgengilegar upplýsingar upp úr árshluta- og mánaðaruppgjörum frá 2010 til og með september 2014. Gögnin verða svo uppfærð eftir því sem fram líður.

Auk þessa skoðaði hópurinn nokkur erlend leyfi vegna opinberra gagna og mótaði sérstakt leyfi fyrir gögn fjársýslunnar en sú vinna nýtist áfram við mótun almenns leyfis, eins og ég kem að á eftir. Frá því að starfi hópsins lauk hafa þessi mál áfram verið í skoðun í fjármálaráðuneytinu í takti við stefnu ríkisstjórnarinnar um að auka aðgengi almennings að gögnum hins opinbera, einkum upplýsingum sem snerta ráðstöfun almannafjár.

Eins og fyrirspyrjandi kom inn á er það svo að með auknu aðgengi almennings að upplýsingum leggjum við grunn að betri nýtingu almannafjár og aukum enn frekar vitund allra og skilning á því í hvað skattpeningarnir fara.

Mikilvægt skref í þessa átt var stigið síðastliðið sumar hjá Fjársýslu ríkisins þegar stofnunin kynnti ríkisreikning fyrir árið 2013. Þá var jafnframt opnaður nýr vefur, rikisreikningur.is, sem ætlað er að veita gott aðgengi að ríkisreikningi hvers árs í anda opinna gagna. Á vefnum er að finna sundurliðun á tekjum og gjöldum ríkisins frá árinu 2004. Gögnin er hægt að skoða á margvíslegan hátt. Á vefnum er að finna almenn yfirlit, en einnig er hægt að kafa dýpra og fá upplýsingar niður á kostnaðartegundarlykil. Vefurinn gefur fólki tækifæri á að bera saman ýmis útgjöld á vegum ríkisins, t.d. eftir stofnunum og árum, með aðgengilegri hætti en verið hefur. Það hefur komið mér nokkuð á óvart hversu hljótt þetta hefur farið, þetta er nefnilega töluvert mikil bylting í auknu aðgengi almennings að kostnaðarlyklum ríkisins.

Það kom reyndar í ljós til að byrja með að sumir fjölmiðlar nýttu hann töluvert til að varpa ljósi á þróun ýmissa ríkisútgjalda, en síðan finnst mér hafa dregið nokkuð úr því eftir því sem frá hefur liðið, en eflaust verður þetta viðvarandi gagn fyrir fjölmiðla og almenning til að afla gagna um þessi mál. Að sjálfsögðu getur vefurinn nýst fleirum.

Þessi vefur, rikisreikningur.is, er skref í átt til greiðara aðgengis almennings að fjárhagsupplýsingum, eykur gegnsæi og traust. Þá má nefna að innan fjármálaráðuneytisins eru næstu skref í að auka aðgengi að fjárlagagögnum í vinnslu. Ráðuneytið hyggst taka þátt í tilraunaverkefni um nýjan alþjóðlegan fjárlagagagnastaðal sem nýtist til samanburðar á fjárlagagögnum ríkja. Samtökin Open Knowledge, sem vinna að því að opna og auka aðgengi að gögnum, hafa þróað staðalinn sem nokkur ríki eru þegar farin að prófa. Markmiðið með staðlinum er að til sé vel uppbyggt og vel læsilegt gagnasnið sem hægt er að nota til að bera saman fjárlagagögn innan og milli landa og standa vonir til að sem flest lönd muni á endanum nota kerfið.

Aukið gegnsæi um störf hins opinbera er til þess fallið að auka traust almennings á stjórnvöldum, dýpka þjóðmálaumræðuna og gera hana skilmerkilegri. Upplýsingar um hvernig stjórnvöld ráðstafa almannafé er veigamikill þáttur í þeim efnum.

Í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar segir: Ríkisstjórnin leggur áherslu á aðgengi almennings að gögnum hins opinbera. Einkum er brýnt að auka og bæta aðgengi að upplýsingum um ráðstöfun almannafjár.

Í anda þess hófst í sumar vinna á vegum nýs starfshóps í innanríkisráðuneytinu sem fjármála- og efnahagsráðuneytið á aðild að. Hópurinn á að starfa til loka árs 2015 og meðal annars vinna tillögu að stefnu um opin gögn, tillögu að leyfisskilmálum, kortleggja og meta hverjir séu mikilvægustu gagnagrunnarnir sem opna þarf aðgang að og vinna að vel hannaðri miðlægri gátt fyrir opin gögn. Markmiðið með þessu er að almenningur, fyrirtæki og hagsmunaaðilar hafi greiðan aðgang að ópersónubundnum upplýsingum úr skrám í vörslu ríkis og sveitarfélaga, upplýsingarnar verði aðgengilegar í einni gátt og endurnýtanlegar fyrir hvern sem er. (Forseti hringir.) Hópurinn hefur sett sér það markmið að opna aðgang að 80% mikilvægustu gagnagrunna ríkisins fyrir árslok 2016.