144. löggjafarþing — 56. fundur,  26. jan. 2015.

aðgengi að fjárhagsupplýsingum ríkisins.

381. mál
[16:24]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Það er ýmsu að fagna þegar kemur að gegnsæi í fjármálum hins opinbera en þó verður að ítreka það sem hv. 10. þm. Reykv. s. nefndi að hvað varðar gegnsæi erum við á niðurleið þegar kemur að samanburði við önnur lönd. Við stöndum okkur ágætlega í viðleitni. Það er aðeins þar sem við virðumst standa vel. Það hefur hins vegar versnað, alla vega síðasta árið, samkvæmt skýrslu sem er stolið úr mér hvað heitir, ég sá hana fyrir örfáum dögum. Það er alveg þess virði að halda því til haga að við þurfum að gefa í þegar kemur að gegnsæi.

Mig langar að stinga upp á því við þessa umræðu, þótt það sé ekki endilega spurning hv. þingmanns til hæstv. ráðherra, því að á rikisreikningur.is, sem er afbragðstól ef út í það er farið og mjög gott að mörgu leyti, sjáum við ekki beinlínis til hvaða fyrirtækja og til hvaða aðila peningarnir renna, ég hef alla vega ekki fundið það — mér þætti það góð framtíðarmúsík (Forseti hringir.) ef við reyndum að opna algjörlega á fjármál ríkisins þannig að við sæjum hvert hver króna fer.