144. löggjafarþing — 56. fundur,  26. jan. 2015.

ríkisframlag til Helguvíkurhafnar.

440. mál
[16:44]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Oddný G. Harðardóttir) (Sf):

Virðulegur forseti. Ég vil þakka hæstv. ráðherra fyrir svörin og hv. þingmönnum fyrir að taka þátt í þessari umræðu. Eins og komið hefur hér fram hafa Suðurnesjamenn núna í næstum áratug sóst eftir að fá fjárhagsstuðning vegna Helguvíkurhafnar. Það eru mörg dæmi um að ríkið hafi komið að slíkum framkvæmdum og síðast var samþykkt hér, bæði í fjáraukalögum og fjárlögum fyrir árið 2015, 100 millj. kr. framlag til breytinga á höfninni í Bíldudal til þess að greiða fyrir atvinnuþróun þar.

Hæstv. ráðherra talaði um það lögbundna ferli sem búið er að samþykkja með hafnalögum, en það er ekki að ástæðulausu sem verið er að bera þessi iðnaðarsvæði saman. Meðal annars stendur í byggðaáætlun fyrir árin 2014–2017, sem var samþykkt hér á þingi, í a-lið 3.2, með leyfi forseta:

„Stutt verði við nauðsynlega uppbyggingu innviða vegna iðnaðarsvæðisins á Bakka við Húsavík.“

Í b-lið:

„Komi til uppbyggingar iðnaðarstarfsemi á Helguvíkursvæðinu munu stjórnvöld í samvinnu við sveitarfélög á svæðinu styðja við frekari uppbyggingu innviða með sambærilegum hætti.“

Hins vegar bólar ekkert á þessu og hæstv. ráðherra sveitarstjórnarmála og hafnamála er mjög vel kunnugt um hvernig hlutirnir eru. Hún minnist á lögbundinn farveg í hafnalögum en jafnframt á það að iðnaðarráðherra sé að vinna sérlög fyrir svæðið. Ég vil því spyrja hæstv. ráðherra hvort hún muni beita sér fyrir því í ráðuneytinu og í ríkisstjórn að þetta hagsmunamál svæðisins verði sett í forgang og í flýtimeðferð, því að eins og hér hefur komið fram er búið að bíða eftir aðstoð vegna hafnarinnar í Helguvík í a.m.k. áratug.