144. löggjafarþing — 56. fundur,  26. jan. 2015.

lögregla og drónar.

449. mál
[17:08]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Helgi Hrafn Gunnarsson) (P):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. innanríkisráðherra kærlega fyrir svarið sem var mjög skýrt, sem er ekki verra með hliðsjón af því að efnislega þykir mér það létta svolítið af þeim áhyggjum sem ég hafði. Mér skildist að lögregla fyrirhugaði kaup á dróna, en hér komu upplýsingar í andstöðu við það. Það gleður mig í bili en þó tel ég mikilvægt að til lengri tíma íhugum við spurninguna betur vegna þess að drónar, eins og aðrar tækniframfarir, eru gagnlegir bæði til góðs og ills. Ég segi oft um internetið og tölvur að þær gera allt auðveldara, þar á meðal mannréttindabrot.

Það er mjög mikilvægt að við áttum okkur á því að þegar fram líða stundir mun lögreglan nota tæknina, það hlýtur að gerast einhvern tíma að lögreglan fari að nota dróna eða sambærilega tækni. Þá er ágætt að við séum búin að hugsa það til enda hvernig við ætlum að haga eftirliti sem framkvæmt er af ómönnuðum tækjum. En fyrst svör hæstv. innanríkisráðherra eru þessi hef ég ekki fleiru við þetta að bæta, en þakka kærlega fyrir góð og skýr svör.

Ég legg að lokum til að fundir fastanefnda Alþingi verði að jafnaði opnir.