144. löggjafarþing — 56. fundur,  26. jan. 2015.

eftirlit með starfsháttum lögreglu.

450. mál
[17:18]
Horfa

innanríkisráðherra (Ólöf Nordal) (S):

Hæstv. forseti. Það er auðvitað rétt hjá hv. þingmanni að við erum á mörgum sviðum að glíma við það að við búum ekki mörg á þessu landi og samfélagið er lítið, og að sama skapi þurfum við að gæta að því að þær stofnanir sem hér eru starfandi séu sterkar og færar um að takast á við þau mikilvægu verkefni sem þeim eru falin.

Það er erfitt að ganga lengra í svari við fyrirspurnum þingmannsins en ég hef þegar lagt fram í mínu fyrra svari. Ég vil þó taka fram að í því frumvarpi sem nú liggur fyrir þinginu, um héraðssaksóknara, eru ákveðnar skipulagsbreytingar fyrirhugaðar á starfsemi ákæruvalds í landinu. Það hefur áhrif á þetta mál. Síðan vil ég ítreka það sem ég sagði áðan og er auðvitað gríðarlega mikilvægt að hornsteinn þeirrar vinnu sem áðurnefndur starfshópur er að fara í núna er að gæta að réttaröryggi í landinu og öryggi borgaranna um leið, og hinn hornsteinninn er, skulum við segja, að lögreglan njóti almenns trausts í landinu. Það er auðvitað lykilatriði í starfsemi hennar og að um starfsmenn gildi traust í þeim störfum sem þeir takast á við á hverjum tíma.