144. löggjafarþing — 56. fundur,  26. jan. 2015.

námskostnaður.

374. mál
[17:20]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Árni Páll Árnason) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég hef áður spurt hæstv. menntamálaráðherra um viðbrögð við því að fólk yfir 25 ára aldri hafi ekki aðgang að bóknámi í almennum framhaldsskólum eins og nú er orðið eftir breytingar sem gerðar voru í fjárlagafrumvarpi í haust. Ég vil inna hann eftir hvort ráðuneytið hafi kannað hver fjárhagsleg áhrif útilokunar nemenda yfir 25 ára aldri verði á námskostnað einstaklinga, en algengt er að skráningargjald í framhaldsskólum nemi 13.000 kr. á önn en skólagjald í háskólabrú, að minnsta kosti í einum skóla, 225.000 kr. Það er staðreynd að þeir sem helst hafa nýtt sér almennt framhaldsskólanám, bóknám, og eru yfir 25 ára að aldri er fólk sem ekki hefur sérstaklega mikið á milli handanna. Konur eru mjög áberandi í þeim hópi og er erfitt að sjá fyrir sér að konur með litla skólagöngu að baki séu í aðstöðu til þess að greiða skólagjöld af þeim toga sem nám í háskólabrú krefst.

Ég vildi þessa vegna spyrja hvort ráðuneytið hafi gert einhverja greiningu á því hvaða áhrif þessi breyting mundi hafa á þá hópa sem nýta sér þetta. Á síðustu árum hafa í kringum 200 manns á ári, fólk yfir 25 ára aldri, komið sér í gegnum stúdentspróf með ærinni fyrirhöfn og lokið bóknámi. Hefur ráðuneytið gert einhverja greiningu á þeim hópi? Hver verða viðbrögð ráðuneytisins?

Að mínu viti er augljóst að mæta þarf þessu með einhverjum hætti, auknum námsstyrkjum eða með öðrum hætti að greiða leið fólks til framhaldsnáms ef ekki á illa að fara og ef þetta á ekki verða til þess að auka á misrétti og draga úr jafnrétti til náms. Jafnframt blasir við að ef þetta fólk á að fara í símenntunarmiðstöðvar og einkaskóla í auknum mæli er ekki nóg með að það þurfi að öllum líkindum að greiða mun meira fyrir þá þjónustu heldur liggur ekki fyrir að ráðuneytið hafi í fjárlögum gert einhverjar ráðstafanir til að mæta auknum kostnaði símenntunarmiðstöðva og einkaskóla af því að taka á móti þessu fólki.

Ég vil þess vegna spyrja ráðherra um þetta. Ég ítreka sérstaklega að sá hópur sem nýtt hefur sér þetta úrræði, og um það eru þeir framhaldsskólakennarar sammála sem kennt hafa þessum hópi, er yfirleitt fólk sem ekki hefur mikið milli handanna, í þessum hópi eru mjög áberandi konur með litla skólagöngu að baki og yfirleitt á lágum launum.