144. löggjafarþing — 56. fundur,  26. jan. 2015.

námskostnaður.

374. mál
[17:30]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P):

Herra forseti. Í velferðarklausunni í 76. gr. stjórnarskrárinnar kemur fram að öllum skuli tryggður í lögum réttur til almennrar menntunar og fræðslu við sitt hæfi. Aðgangur að háskóla er ekki takmarkaður og allir þurfa að borga sama gjald þegar þeir sækja um þar. Allir sitja við sama borð varðandi grunnskólann. Menn sitja ekki við alveg sama borð varðandi framhaldsskólann og hefur hæstv. ráðherra fært rök fyrir því hvers vegna það er og hvers vegna þessi leið er farin.

Spurning mín er þessi: Er samt sem áður öllum tryggður réttur samkvæmt stjórnarskránni til almennrar menntunar og fræðslu við hæfi? Er þá jafnræðis líka gætt innan þess ramma óháð efnahag og aldri o.s.frv.? Geta þeir sem eru orðnir eldri en 25 ára sótt sér menntun fyrir sama kostnað og þeir sem eru yngri en 25 ára? Það getur að sjálfsögðu verið þannig (Forseti hringir.) að fólk eldra en 25 ára sé komið í erfiða stöðu, til dæmis fátæktargildru sem þeir losna ekki úr og geta ekki sótt sér þessa menntun til (Forseti hringir.) þess geta haldið áfram að bæta líf sitt.