144. löggjafarþing — 56. fundur,  26. jan. 2015.

fækkun nemendaígilda.

375. mál
[17:44]
Horfa

Katrín Júlíusdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Það var vel gert hjá þessari ríkisstjórn að setja aukna fjármuni í háskólana við lokaafgreiðslu fjárlaga. Það hefði verið ansi mikið högg fyrir háskólana, tökum sem dæmi Háskóla Íslands, ef þjóðarháskólinn hefði allt í einu staðið frammi fyrir því að þurfa taka ákvörðun sjálfur um það hvernig hann ætti að velja nemendur í nám. Vel var gert í þessu og fyrir það ber að þakka.

Það sem mig langar að nefna er að ég hef alltaf svolitlar áhyggjur af því þegar við erum að tala um háskólana að mér finnst við stundum gera lítið úr þeim hópi sem fer hægt í gegnum hann, þ.e. þeim hópi sem tekur eitt og eitt fag og vinnur sig í áttina að gráðu hægari skrefum en þeir námsmenn sem geta verið í fullu námi. Mér finnst mjög mikilvægt þegar við horfum til háskólastarfs að við tökum tillit til þessa hóps sem er að reyna að sækja sér aukna menntun meðfram vinnu eða öðru sem (Forseti hringir.) þeir sinna. Gerum ekki minna úr framlagi þeirra til samfélagsins en hinna sem taka þetta í einni beit.