144. löggjafarþing — 56. fundur,  26. jan. 2015.

skipun sendiherra.

226. mál
[17:54]
Horfa

utanríkisráðherra (Gunnar Bragi Sveinsson) (F):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þingmanni fyrir fyrirspurnina sem gefur gott tækifæri til að fara yfir það góða fólk sem er í daglegu starfi hjá okkur á Íslandi sem útverðir okkar víða um heim.

Skipun sendiherra fer eftir starfsmannalögum og lögum um utanríkisþjónustuna. Hinar formlegu kröfur fyrir embættisgengi eru tilgreindar í 6. gr. starfsmannalaga og eru hinar sömu og eiga við embættismenn almennt, svo sem skilyrði sem snúa að aldri, ríkisborgararétti, fjárforræði o.s.frv. Til viðbótar lögformlegum skilyrðum er litið svo á að veitingarvaldshafi hafi nokkurt svigrúm til að afmarka nánar þá eiginleika og hæfni sem sóst er eftir við skipan í embætti.

Þegar horft er til skipunar sendiherra í íslensku utanríkisþjónustuna, hvort heldur er síðustu ár eða yfir lengri tíma, er ljóst að almennt hefur verið lagt til grundvallar að sendiherraefni þurfi að búa yfir staðgóðri þekkingu á sviði alþjóðasamskipta og stjórnmála, starfi alþjóðastofnana og milliríkjaviðskipta. Sendiherraefni þurfa að búa yfir mikilli samskiptahæfni og góðri tungumálakunnáttu og hafa hæfileika til að koma fram fyrir Íslands hönd á æðsta stigi og við ólíklegustu tilefni, en jafnframt að búa yfir getu og vilja til að ganga í öll verk stór og smá, enda eru íslenskar sendiskrifstofur flestar afskaplega smáar í sniðum.

Íslenskur sendiherra þarf að vera tilbúinn til að koma fram fyrir hönd landsins meðal erlendra þjóðhöfðingja, ráðherra, þingmanna, háttsettra embættismanna, framámanna í viðskiptum, listum, íþróttum og svo mætti lengi telja. Þessi sami sendiherra þarf síðan að vera tilbúinn til að ganga í öll verk á lítilli sendiskrifstofu, eins og ég sagði áðan, og aðstoða Íslendinga í ýmiss konar vanda á öllum tímum sólarhrings í öllum heimshornum. Sendiherra verður að hafa sterk og góð tengsl við samfélagið heima á Íslandi, enda er hann eða hún fulltrúi Íslands og okkar Íslendinga í gistiríkinu. Sendiherra þarf jafnframt að hafa góð tengsl í gistiríki eða hjá viðkomandi alþjóðastofnunum og samstarfslöndum eða hafa forsendur á grundvelli fyrri starfa til að byggja slík tengsl hratt upp á nýjum stað.

Þekking og reynsla á starfssviði utanríkisþjónustunnar er eins og rauður þráður í framangreindri upptalningu. Þessa þekkingu og reynslu er eðli málsins samkvæmt helst að finna hjá þeim sem hafa helgað sig utanríkismálum til lengri tíma. Hjá okkur líkt og í utanríkisþjónustu þeirra ríkja sem við berum okkur helst saman við er því algengast að sendiherraefni komi úr röðum reynslumeiri starfsmanna utanríkisþjónustunnar sjálfrar. Við höfum hins vegar góða reynslu af því að leita jafnframt út fyrir raðir utanríkisþjónustunnar eftir sendiherraefnum sem búa yfir sambærilegri þekkingu og reynslu á alþjóðamálum. Ég get nefnt sem dæmi reynslumikla og öfluga embættismenn annars staðar úr stjórnkerfinu, fyrrverandi ráðherra og þingmenn, öflugt fólk úr viðskipta- og menningarlífi, svo eitthvað sé nefnt.

Sé horft til síðustu áratuga lætur nærri að á hverjum tíma hafi í kringum 20% starfandi sendiherra ekki gegnt lægri stöðu í sendiskrifstofu áður en þeir voru skipaðir sendiherrar. Þetta er nokkuð breytilegt eftir árum að sjálfsögðu.

Ég hef persónulega djúpa sannfæringu fyrir því að það sé utanríkisþjónustunni hollt, eins og öðrum vinnustöðum, að vera ekki með lokað kerfi. Utanríkisþjónustan á að sjálfsögðu að vega og meta reynslu og þekkingu annars staðar frá á móti þeirri þekkingu og reynslu sem fólk öðlast í störfum innan hennar.

Þess vegna tel ég að það hafi verið til mikilla bóta þegar afnumin var almenn undanþága frá auglýsingu allra starfa í utanríkisþjónustunni samhliða gildistöku nýju starfsmannalaganna árið 1996. Eftir það er enginn handvalinn í lægri stöður í utanríkisþjónustunni eftir öðrum reglum en almennt gilda. Alþingi ákvað hins vegar samhliða þeirri breytingu að halda fyrri skipan varðandi einn flokk embættismanna utanríkisþjónustunnar, þ.e. þannig að auglýsingaskylda 7. gr. starfsmannalaga gilti ekki um embætti sendiherra, eins og hv. þingmaður benti réttilega á áðan. Fyrir því eru ákveðin rök og þá helst þau sömu og ég nefndi áðan. Utanríkisþjónustan á ekki að vera lokað kerfi öðrum en þeim sem ganga tröppurnar innan þjónustunnar til enda og jafn mikils og ég met alla þá þekkingu og reynslu sem er að finna innan þjónustunnar og það góða starfsfólk sem þar er, tel ég, og það er mín persónulega skoðun, að þjónustunni sé hollt að geta einnig á þessu stigi notið þekkingar og reynslu annars staðar frá.

Eftir sem áður kemur stærsti hluti sendiherraefna úr röðum reynslumeiri starfsmanna þjónustunnar. Ég tel mikilvægt að svo verði að sjálfsögðu áfram. Utanríkisráðuneytið býr því yfir víðtækri þekkingu og menntun þeirra, reynslu og hæfni til starfa.

Að lokum er rétt að taka fram til að forða misskilningi að við erum hér að tala um ákveðinn flokk embættismanna innan utanríkisþjónustunnar, þ.e. að menn eða konur hljóta skipun í embætti sendiherra í utanríkisþjónustunni en ber síðan að sinna starfi sendiherra eftir ákvörðun ráðherra, annaðhvort í ráðuneytinu eða einhverri af sendiskrifstofum Íslands sem eru nú um 22 að tölu að meðtalinni skrifstofu okkar í Róm, að undanskildum umdæmisskrifstofum ÞSSÍ.

Það eru hins vegar dæmi um það, af því hv. þm. nefndi hversu lengi menn stoppa í þjónustunni, að aðilar utan þjónustunnar sem hafa verið teknir inn hafi verið allt í 19 ár í embætti, (Forseti hringir.) 15 ár, 10 ár o.s.frv. (Forseti hringir.) En það eru vissulega mörg dæmi um að menn hafi stoppað stutt.