144. löggjafarþing — 56. fundur,  26. jan. 2015.

skipun sendiherra.

226. mál
[17:59]
Horfa

Katrín Júlíusdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni þessa fyrirspurn. Ég held að það skipti miklu máli að við ræðum þetta mál. Ég held líka að það skipti miklu að við reynum að skapa meira traust til þessa anga utanríkisþjónustunnar en verið hefur vegna þess að menn hafa ekki séð það skýrt hvaða reglur gilda um skipun í stöðu sendiherra. Engu að síður er ég sammála hæstv. ráðherra í því að menn eigi ekki að fara eina leið inn í stöðu sendiherra heldur þurfum við að vera þar með fjölbreytta flóru. Ég tel til dæmis að það geti komið fólki að gagni í starfi sendiherra að hafa víðtæka þekkingu og reynslu í menningargeiranum, viðskiptalífi eða stjórnmálum. Það á ekki að útiloka þá hópa. Þrátt fyrir það skiptir máli að við séum með einhverja stefnu í því hvernig fólk er valið, á hvaða forsendum, og þá líka hvaða leið það fer og hvernig hæfi þeirra er metið, þannig að það liggi skýrt fyrir (Forseti hringir.) og þessu sé treyst. Einnig þurfa menn að setja sér mörk (Forseti hringir.) til dæmis varðandi hvernig hópurinn á að (Forseti hringir.) vera samansettur og taka (Forseti hringir.) verður tillit til kynjabreytunnar þegar verið er að skipa sendiherra.