144. löggjafarþing — 56. fundur,  26. jan. 2015.

skipun sendiherra.

226. mál
[18:03]
Horfa

utanríkisráðherra (Gunnar Bragi Sveinsson) (F):

Virðulegi forseti. Ég held að óhætt sé að fullyrða, og ég ætla að leyfa mér að gera það hér, að þeir sendiherrar sem hafa verið skipaðir í gegnum tíðina, hvort sem þeir koma úr utanríkisþjónustunni eða annars staðar frá, hafi staðið sig mjög vel. Ég veit að hv. þingmaður er ekki að gera neinum upp neitt annað.

Auðvitað fylgir ákveðin ábyrgð því valdi ráðherra að geta ákveðið til dæmis að taka eigi menn úr utanríkisþjónustunni og gera þá að sendiherrum. Ég held hins vegar að farið hafi verið býsna vel með það vald á undanförnum árum. Eitt er þó um þetta að segja og það er að eðlilegt er að menn setji ákveðna fyrirvara við það að einstaklingur eða ráðuneyti skuli fara með slíkt vald. Ég ætla að leyfa mér að fullyrða að fram að þessu hafa verið valdir einstaklingar sem hafa eitthvað til brunns að bera til starfseminnar.

Vissulega gengur ekki að allir stjórnmálamenn geti gengið að því vísu að fá störf í utanríkisþjónustu. Það kemur ekki til greina. Ég held að líka ágætt sé að menn hafi það til hliðsjónar sem hv. þm. Katrín Júlíusdóttir nefndi, að horfa á kynin. Ég veit ákveðna skömm upp á ráðuneyti mitt í því. Við þurfum að laga hlutföll karla og kvenna í æðstu stöðum í ráðuneytinu og í sendiherrastöðunum sem dæmi, að sjálfsögðu er það vilji minn að vinna að því.

Svo er það hitt, hvað við viljum endurspegla með þjónustu okkar. Við erum með mjög fáar sendiskrifstofur. Við þurfum að „presentera“ mjög breið sjónarmið eða breiða starfsemi á öllum skrifstofum okkar. Þar af leiðandi er lögð, ég fullyrði það, og hefur verið lögð í gegnum tíðina mikil áhersla á að velja gott fólk, enda sinnir okkar fólk þessu vel.

Það er gott að taka þessa umræðu. Ég er ekkert endilega sammála hv. þingmanni að það þurfi að fara í lagabreytingar en ég er opinn fyrir því að hlusta á allar tillögur um breytingar. Ég mun (Forseti hringir.) alltaf vilja halda því til haga (Forseti hringir.) að ráðherra hafi möguleikann á því að taka (Forseti hringir.) inn fólk utan þjónustunnar og skipa í þessi störf.