144. löggjafarþing — 56. fundur,  26. jan. 2015.

umönnunargreiðslur.

409. mál
[18:14]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Sigríður Ingibjörg Ingadóttir) (Sf):

Hæstv. forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra Eygló Harðardóttur fyrir svörin. Ég ætla að lýsa yfir sérstakri ánægju með að hún hafi skipað starfshóp til þess að fara yfir þessi mál og hvet ég hana til þess að taka Öryrkjabandalagið inn í þann hóp enda voru fulltrúar þess í starfshópnum sem starfaði áður.

Ég vil hins vegar lýsa yfir vonbrigðum með að ekki sé bara haldið áfram með vinnuna eins og hún lá fyrir. Það voru gefnar út lokaniðurstöður þar sem voru beinar tillögur. Ég tel að það sé hægt að vinna á grundvelli þeirra tillagna, vinnan nú þurfi ekki að taka ár þar sem þegar er búið að vinna mikið starf. Auðvitað vill ráðherra mynda sér skoðun á niðurstöðum, en það liggur nokkurn veginn fyrir af hálfu þeirra sem hafa hagsmuni af málinu hvernig þeir telja að skipan þess væri best fyrir komið. Síðan þarf auðvitað að fara yfir hvað er mögulegt að gera og slíkt, en mér finnst heilt ár til þess að fá niðurstöður — og þá á eftir að smíða frumvarp — of langur tími.

Að því sögðu er gott að þessi vinna er þó í gangi. Ég vil hvetja ráðherra til þess að fela kannski hópnum að semja frumvarp. Það gæti flýtt fyrir málinu.

Ég vil líka ítreka eitt varðandi umönnunargreiðslurnar sem fara þá væntanlega yfir í annað form. Þó að fólk geti nánast að fullu eða að miklu leyti verið á vinnumarkaði verði ekki eingöngu litið til kostnaðar heldur líka til þeirra greiðslna sem fatlaðir og fötluð börn og fjölskyldur þeirra þurfa til þess að fjölskyldan njóti verndar og tækifæra til réttinda að fullu og til jafns við aðra í samræmi við sáttmála Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks.