144. löggjafarþing — 57. fundur,  27. jan. 2015.

störf þingsins.

[13:38]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Í þjóðaratkvæðagreiðslu um nýja stjórnarskrá lýðveldisins Íslands þann 20. október 2012 var sex spurninga spurt. Sú þriðja þeirra varðaði kirkjuskipan ríkisins og var spurningin svohljóðandi, með leyfi forseta:

„Vilt þú að í nýrri stjórnarskrá verði ákvæði um þjóðkirkju á Íslandi?“

57,1% þeirra sem tóku afstöðu sögðu já, þ.e. meiri hluti.

Virðulegi forseti. Þótt ég telji persónulega óþarft að hafa sérstakt ákvæði um þjóðkirkju í stjórnarskrá þykir mér mikilvægt að þjóðarviljinn sé virtur. Ákvæði um þjóðkirkju á Íslandi gæti jafnvel hjálpað til við að nútímavæða kirkjuskipan ríkisins. Því tel ég að heppilegt væri að ákvæði í stjórnarskrá um þjóðkirkju á Íslandi væri svohljóðandi: Þjóðkirkju skal aldrei í lög leiða heldur skal ríkisvaldið styðja og vernda trúfrelsi á Íslandi.

Ég hef þegar hafið undirbúning frumvarps þess efnis og þigg með þökkum meðbyr, stuðning og hjálp annarra þingmanna við að koma því á framfæri á vettvangi þingsins.

Að lokum legg ég til að fundir fastanefnda Alþingis verði að jafnaði opnir.