144. löggjafarþing — 57. fundur,  27. jan. 2015.

störf þingsins.

[13:42]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf):

Virðulegi forseti. Það er lágmark ef menn vitna í orð annarra þingmanna að þeir fari rétt með. Ég tók skýrt fram í gær að ef menn vildu rannsaka þetta mál væri það sjálfsagt. Ef grunur leikur hins vegar á um lögbrot er það ekki Alþingis að gera það heldur höfum við réttarvörslukerfi í landinu, lögreglu og ríkissaksóknara, og eðlilegt að þeir rannsaki grun um lögbrot.

Ég held ekki upplýsingum frá nokkrum manni, enda fer ég ekki með neinar þær upplýsingar sem ég get haldið frá nokkrum manni. Flokkur hv. þingmanns er í ríkisstjórn og getur gert hvað hann vill við þær upplýsingar sem hann hefur aðgang að í gegnum setu sína í Stjórnarráðinu. Hæstv. fjármálaráðherra sagði skýrt í gær að hann sæi hvergi að ásakanir um lögbrot ættu við rök að styðjast þannig að mér þætti eðlilegt að hv. þingmaður beindi máli sínu að hæstv. fjármálaráðherra í þessu efni. Hann fer með allar upplýsingar um þessi mál, situr á þeim í fjármálaráðuneytinu.

Ég hef gert athugasemdir við það að menn noti ásakanir um lögbrot án nokkurs efnislegs rökstuðnings í pólitískum tilgangi og mér sýnist það vera að eiga sér stað í þessu máli. Það er grundvallaratriði að á Íslandi eru lög sem tryggja kröfuhöfum í öllum tilvikum rétt yfir eignum þrotabús sem þeir eiga kröfur á. Ríkið hefur ekki í nokkru tilviki frjálsan rétt til að taka eignir úr þrotabúum og svipta kröfuhafa rétti yfir eignum sínum og eignarrétti sínum í þrotabú. Þannig er það með öll þrotabú í landinu, alveg sama hvort það eru bankar eða önnur þrotabú. Kröfuhafarnir eiga búin og forsenda neyðarlaganna, forsendan sem lagt var upp með af hálfu ríkisstjórnarinnar haustið 2008, forsendan sem þáverandi seðlabankastjóri kynnti í efnahags- og skattanefnd þegar verið var að ræða neyðarlögin, var sú að sannvirði yrði greitt fyrir þær eignir sem teknar yrðu út úr þrotabúunum. (Forseti hringir.) Og það hefur verið loforð íslenskra stjórnvalda frá upphafi, frá því að Geir H. Haarde, Árni Mathiesen (Forseti hringir.) og Davíð Oddsson skrifuðu undir fyrstu viljayfirlýsinguna til Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, (Forseti hringir.) að sannvirði yrði greitt fyrir eignina.