144. löggjafarþing — 57. fundur,  27. jan. 2015.

störf þingsins.

[13:46]
Horfa

Ásmundur Einar Daðason (F):

Virðulegi forseti. Ég ætlaði að tala um kjarasamninga og hækkun launa hjá æðstu stjórnendum í fyrirtækjum í eigu lífeyrissjóðanna, en mig langar aðeins til að koma inn á það mál sem var til umræðu áðan milli hv. þm. Vigdísar Hauksdóttur og hv. þm. Árna Páls Árnasonar, formanns Samfylkingarinnar.

Ég var hvergi var við það í ræðu hv. þm. Vigdísar Hauksdóttur að hún talaði um lögbrot, en þær ásakanir sem hafa verið í umræðunni núna undanfarna daga eru auðvitað grafalvarlegar. Ef rétt reynist að pólitískar ákvarðanir hafi verið teknar sem hafa stuðlað að því að kröfuhöfum hafi verið færðir 300–400 milljarðar, að staða þeirra hafi verið styrkt sem því nemur, þá hlýtur það að vera kappsmál okkar allra að slíkt sé rannsakað, að slíkt sé skoðað. Ég veit að stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd er að skoða þetta mál. Þegar niðurstaða úr því liggur fyrir hlýtur það að vera eitthvað sem þingheimur allur ætti að geta sameinast um, að ef einhver vafi leikur á því að eitthvað í þessu hafi verið með þeim hætti að það þurfi að skoðast, þá hlýtur það að vera vilji allra sem hér eru til að skoða þau mál og rannsaka þau með þeim hætti sem eðlilegt er til að eyða allri óvissu um að þarna hafi rétt verið farið að.

Ég verð að segja að það hryggir mig að hlusta á formann Samfylkingarinnar, hv. þm. Árna Pál Árnason, koma hingað upp með útúrsnúningum og hálfpartinn eyða því að Samfylkingin verði tilbúin til að skoða þetta mál með (Gripið fram í.) tilhlýðilegum hætti. Það er fullkomlega eðlilegt að þetta mál verði rannsakað (Gripið fram í.) ekki hvað síst vegna — þá verður hv. þingmaður líka að fara rétt með það að hann vitnar í hv. þm. Vigdísi Hauksdóttur. Það er ekki síst (Gripið fram í.) mikilvægt í ljósi þessara ásakana að þetta sé (Gripið fram í.) rannsakað. (Gripið fram í: Þetta er nú fín …) (Gripið fram í: Mikil ókyrrð …) (Gripið fram í: … hjá Samfylkingunni.) Mikil ókyrrð.