144. löggjafarþing — 57. fundur,  27. jan. 2015.

störf þingsins.

[13:49]
Horfa

Þórunn Egilsdóttir (F):

Hæstv. forseti. Kynbundinn launamunur er því miður staðreynd í samfélagi okkar og þrátt fyrir miklar breytingar síðustu ár og áratugi er íslenskur vinnumarkaður mjög kynskiptur. Þótt tölur sýni að hlutur karla í svokölluðum dæmigerðum kvennastörfum sé rýr alls staðar á Norðurlöndunum er hann áberandi minnstur hér á landi. Allar breytingar eru afar hægfara. Því vil ég vekja athygli á jákvæðu framtaki.

Hæstv. ráðherra Eygló Harðardóttir sem er bæði samstarfsráðherra Norðurlandanna og ráðherra jafnréttismála segir í grein í Fréttablaðinu, með leyfi forseta:

„Í norrænu jafnréttissamstarfi hefur meginstefið verið að jafna stöðu og réttindi kvenna og karla á vinnumarkaði. Sjónum hefur verið beint að jafnrétti til launa og því hvernig brjóta megi upp hefðbundna kynjaskiptingu á vinnumarkaði.“

Allir sem hafa fylgst með jafnréttisstarfi hér á landi vita hvað vinnumarkaðurinn hefur verið kynjaskiptur á Íslandi. Svo hefur einnig verið annars staðar á Norðurlöndunum. Þar hafa hins vegar verið settar upp alls kyns áætlanir, alls kyns prógrömm, sem ganga út á að ná körlum inn í hinar hefðbundnu kvennastéttir, svo sem í leikskólastörf og umönnunarstörf og öfugt. Það hefur tekist ágætlega af því að þar hefur verið unnið markvisst í því. Það höfum við hins vegar því miður ekki gert.

Ég vil því fagna því sérstaklega að eitt af stóru verkefnum um jafnréttismál sem ráðherrann nefndi og á að styrkja úr framkvæmdasjóði jafnréttismála er einmitt verkefni um gerð framkvæmdaáætlunar til að draga úr kynbundnu náms- og starfsvali. Verkefnið verður unnið í velferðarráðuneytinu í samstarfi við mennta- og menningarmálaráðuneytið.

Ég segi því: Loksins, loksins, virðulegur forseti. Nú á að vinna markvisst að því að brjóta upp hinn kynskipta vinnumarkað. Það er vel.