144. löggjafarþing — 57. fundur,  27. jan. 2015.

störf þingsins.

[13:51]
Horfa

Líneik Anna Sævarsdóttir (F):

Virðulegi forseti. Ég ætla að ræða áherslu á sérhæfðar læknisfræðilegar greiningar barna í þjóðfélaginu þegar á stundum væri hægt að fara einfaldari leiðir. Ég hef lengi velt þessum málum fyrir mér en umfjöllun um málið í Morgunblaðinu þann 15. janúar síðastliðinn þar sem rætt var við Evald Sæmundsen, sviðsstjóra rannsókna hjá á Greiningar- og ráðgjafarstöð ríkisins, vakti mig til frekari umhugsunar. Á síðustu árum hefur þekkingu starfsfólks grunn- og leikskóla á ýmsum frávikum í þroska og námi barna fleygt fram. Jafnframt hefur þekking aukist á því hvernig mögulegt er að aðstoða nemendur við að sinna námi og starfi í skólunum. Samhliða hefur fagleg þekking og færni starfsfólks skólaþjónustunnar aukist og burðir til að greina frávik og veita starfsfólki ráðgjöf. Þetta ætti að tryggja að í minna mæli þyrfti að leita út fyrir kerfið eftir þjónustu en samhliða þessu lengjast biðlistar í sérhæfðustu læknisfræðilegu greiningarnar, svo sem hjá Greiningar- og ráðgjafarstöð ríkisins og BUGL.

Ég leyfi mér að efast um að allir sem eru á þessum biðlistum séu þar af raunverulegri þörf, heldur byggist þörfin að einhverju leyti á því að fjármagni úr Jöfnunarsjóði sveitarfélaga og jafnvel innan sveitarfélaga er að einhverju leyti úthlutað til skóla á grunni sérhæfðra læknisfræðilegra greininga. Sem betur fer er verklag í flestum grunn- og leikskólum samt þannig að brugðist er við þörfum barna óháð því hvort formleg greining sálfræðings eða læknis liggur fyrir. Ég vil því skora á heilbrigðisyfirvöld, menntamálayfirvöld og samtök sveitarfélaga að taka höndum saman og fara yfir verkferla á þessu sviði því að þarna tel ég mögulegt að einfalda málin samhliða því að efla þjónustu og draga úr kostnaði hjá foreldrum, skólum, sveitarfélögum og heilbrigðiskerfinu.