144. löggjafarþing — 57. fundur,  27. jan. 2015.

störf þingsins.

[14:00]
Horfa

Vilhjálmur Árnason (S):

Virðulegi forseti. Umræðan um vopnamál lögreglunnar hélt áfram hér í gær. Ég er svolítið hugsi eftir þá umræðu og spyr: Hvað er það sem þingmenn skilja ekki? Eða er verið að draga lögregluna inn í pólitíska umræðu? Hér hefur verið gríðarlega mikil umræða um málið frá því í október. Þingnefndir hafa fengið fullt af upplýsingum um málið, fullt af upplýsingum hafa komið fram á opinberum vettvangi en enn er því haldið fram að verið sé að breyta vopnastefnu eða vopnavæðingu lögreglunnar. Þetta hefur legið fyrir, allar reglurnar hafa legið fyrir í nokkra mánuði. Lögreglan hefur átt hundruð skotvopna í tugi ára sem hefur verið dreift víða um land. Hún er með fastar reglur um aðgengi að þeim og oft hefur verið sagt frá grunni þeirra reglna að undanförnu. Samt er því haldið fram að verið sé að breyta þessu og lögreglan sé farin að nota vopn daglega og annað slíkt.

Það sem er í gangi er að lögreglan er að sinna hlutverki sínu, öryggishlutverkinu sem snýst um að tryggja öryggi borgaranna með því að vera viðbúin við því óvænta. Allt þetta hefur snúist um það að eftir faglegt áhættumat og áhættugreiningar og annað er tekin ákvörðun um hvernig þjálfun og búnaður á að vera. Ég spyr marga þá sem hafa tekið þátt í þessari umræðu hvort þetta hafi verið hugsunin, stefnubreyting, þegar hingað komu 50 skotvopn sem norski herinn gaf árið 2011. (Gripið fram í: Til Landhelgisgæslunnar.) Til Landhelgisgæslunnar sem sinnir löggæslu á hafi. Var þetta það sama?

Við skulum líka hafa það á hreinu að þetta snýst allt um að auka öryggi borgaranna og þeirra sem sinna örygginu og það á ekki að vera að tortryggja svona.