144. löggjafarþing — 57. fundur,  27. jan. 2015.

gjaldeyrishöft.

[14:18]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrir að fá tækifæri til að skiptast á orðum um þetta risavaxna mál. Ég vil nota tækifærið og ítreka það sem ég hef áður sagt í umræðum um þessi mál, að um leið og verkefnið er stórt og mikið er mjög mikilvægt að við náum samstöðu um þau skref sem stíga þarf. Sú samstaða þarf að fela í sér að afnám hafta valdi ekki almennri kjaraskerðingu fyrir almenning í landinu. Ég held að það hljóti að vera eitt af markmiðunum í þessari vinnu.

Þó að það sé rétt að höftin kunni að verða afnumin í einhverjum skrefum er mikilvægt að hafa heildarmyndina alltaf undir og þess vegna er mjög mikilvægt að vel sé staðið að málinu og að við náum samstöðu um þá aðferðafræði sem verður fyrir valinu, hver sem hún kann að verða. Hér hefur verið rætt um nauðasamninga og hér hefur líka verið rætt um útgönguskatt, sem ég hef nú raunar alltaf haldið til haga að kunni að verða sú leið sem fara þurfi í þessu máli. En hluti af því að við getum lent þessu máli almennilega er að almenningur í landinu og Alþingi allt sé upplýst af því að hér kann að koma upp sú staða að við þurfum að taka ákvarðanir með skömmum fyrirvara og þá er brýnt að við getum náð samstöðu um þær ákvarðanir. Auðvitað er von að við setjum spurningarmerki við til að mynda allar þær misvísandi yfirlýsingar sem gefnar hafa verið og komið hafa fram, meðal annars í máli hv. málshefjanda, þar sem tilkynnt var við upphaf þessa ríkisstjórnarsamstarfs að unnin yrði ný áætlun um afnám hafta. Hana átti að kynna í september 2013, ekki september 2014. Hér kom fram áðan að nú væri unnið að heildstæðri áætlun. Ég skil þá málið sem svo að við séum í raun og veru enn að vinna samkvæmt hinni gömlu áætlun sem sett var á laggirnar 2011, nema það sé þannig að ekki sé unnið samkvæmt neinni áætlun. Mér finnst mikilvægt að fá það staðfest að við séum þá að vinna samkvæmt áætluninni sem samþykkt var 2011 og nýja áætlunin hafi í raun ekki litið dagsins ljós þó að hér sé margoft búið að gefa yfirlýsingar um annað.

Ég fagna orðum hæstv. ráðherra um áframhald á þverpólitísku samstarfi en kem nánar að því á eftir í síðara innleggi mínu.