144. löggjafarþing — 57. fundur,  27. jan. 2015.

gjaldeyrishöft.

[14:21]
Horfa

Guðmundur Steingrímsson (Bf):

Virðulegi forseti. Ég verð að viðurkenna að ég er eins og málshefjandi orðinn svolítið ringlaður á ýmsum yfirlýsingum um afnám hafta, að aðgerðir um afnám hafta verði kynntar fyrir eða eftir helgi, þetta er orðið svona síendurtekið leiðarstef í umræðunni um höftin. Maður er orðinn svolítið langeygður eftir því að fara að sjá einfaldlega hverjar áætlanirnar eru. Ef menn hafa ekki áætlanirnar þá ættu menn að hætta endurteknum yfirlýsingum um að þær sé væntanlegar.

Hins vegar finnst mér margt í áherslum hæstv. fjármálaráðherra í umræðunni um afnám hafta vera mjög gott. Ég get tekið undir það. Mér hefur fundist mjög mikilvægt að það er skýrt í huga hæstv. fjármálaráðherra að við erum að fara að afnema höft, við erum ekki að fara að reyna að græða peninga, verkefnið er að afnema höft á fjármagnsflutninga og koma á frjálsu markaðshagkerfi, frjálsum fjármagnsflutningum á Íslandi.

Á sama tíma ætlum við að viðhalda stöðugleika og við verðum að búa þetta ferli þannig úr garði að við eflum traust á íslensku hagkerfi. Þetta þarf allt að vera alveg skýrt. Þetta er ekki ferli þar sem við ætlum að reyna að nota tækifærið til að koma höggi á erlenda kröfuhafa eða til að svara fyrir okkur út af því sem íslenska þjóðin þurfti að láta ganga yfir sig í hruninu, eða til þess að koma 300 milljörðum einhvern veginn upp í Seðlabanka sem við getum síðan eytt að vild hér í pólitíkinni. Þetta er ekki ferli um það.

Gagnvart þeirri hugmynd að við komum til með að græða fullt af peningum í þessu þá hvet ég til þess að menn spyrji sig: Mun það standast fyrir dómstólum erlendis að það verði hið augljósa markmið afnáms haftanna hér? Hver er munurinn á því að taka 300 milljarða úr þessum sjóðum sem eru ekki inni í hagkerfinu núna og einfaldlega bara prenta þessa peninga og setja þá út í hagkerfið með augljósum efnahagslegum afleiðingum? Þannig að ég fagna því að markmiðin (Forseti hringir.) í huga hæstv. fjármálaráðherra eru skýr.

Ég held að það sé meiri samhljómur milli (Forseti hringir.) hæstv. fjármálaráðherra og minnihlutaflokkanna (Forseti hringir.) á þingi en á milli (Forseti hringir.) fjármálaráðherra og (Forseti hringir.) hæstv. forsætisráðherra.