144. löggjafarþing — 57. fundur,  27. jan. 2015.

gjaldeyrishöft.

[14:38]
Horfa

Frosti Sigurjónsson (F):

Virðulegi forseti. Yfirskrift þessarar umræðu er gjaldeyrishöft. Málshefjandi er hv. þm. Árni Páll Árnason, fyrrverandi efnahags- og viðskiptaráðherra í ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur. Þeirri ríkisstjórn og þeim ráðherra tókst ekki að ljúka því verkefni að afnema fjármagnshöftin þótt væntanlega hafi ekki skort vilja til verksins. Hvers vegna skyldi það nú hafa tekið svo langan tíma?

Hv. málshefjandi hefur kallað eftir samráði af hálfu núverandi ríkisstjórnar, en þó hefur hann sjálfur átt sæti í samráðsnefnd þingnefndar um afnám hafta þar sem fulltrúar allra þingflokka sitja. Í samráðsnefndinni höfum við fengið kynningar um framvindu við afnám hafta og þá undirbúningsvinnu sem þar er í gangi. Við höfum fengið að spyrja innlenda og erlenda sérfræðinga og ráðgjafa sem vinna að tillögum að undirbúningi á næstu skrefum í afnámi hafta bundin trúnaði og þagnareiði.

Því miður fara hagsmunir landsmanna og kröfuhafa ekki alltaf saman. Kröfuhafar, sem flestir hafa keypt sig inn í þessa stöðu, vilja að sjálfsögðu hámarka gróðann af þeirri stöðutöku sinni, en þar sem gjaldeyristekjur þjóðarbúsins eru endanleg stærð er ekki hægt að verða við kröfum þeirra nema með því að skerða lífskjör í landinu um ókomin ár. Ég hef heyrt af ræðum þingmanna hér að fullkomin samstaða er um það í þessum sal að það sé ekki fær leið.

Það er mikilvægt að rifja upp að kröfuhafar eiga kröfur í fallna banka en ekki á ríkissjóð. Þessir föllnu bankar eru íslensk slitabú sem eru lokuð innan fjármagnshafta eins og allir aðrir í þessu landi. Kröfuhafarnir hafa óskað eftir því að fá að taka sitt fjármagn út fyrir höftin á undan öðrum hér í landi. Ekki er til nægur gjaldeyrir í landinu til þess að verða við því og gjaldeyrisafgangur komandi ára mun ekki duga nema kröfuhafar gefi verulegan afslátt af kröfum sínum.

Ríkisstjórnin hefur það vandasama verkefni að leysa fjármagnshöftin og gæta jafnræðis í því ferli og einnig að það verði ekki á kostnað landsmanna og lífskjara í landinu. Hér skiptir miklu að það takist vel til. Og eins og smiðirnir segja: Það skiptir mestu máli að mæla tvisvar því það er bara hægt að saga einu sinni.