144. löggjafarþing — 57. fundur,  27. jan. 2015.

gjaldeyrishöft.

[14:40]
Horfa

Birgitta Jónsdóttir (P):

Forseti. Ég vil byrja á að fagna því sem fram hefur komið í máli hæstv. fjármálaráðherra um aukið upplýsingaflæði og samvinnu um það hvað við ætlum að gera eftir að höftunum verður aflétt. Mér finnst það ekki síður mikilvægt og ég vona að sú samvinna sem hér hefur verið boðuð feli það líka í sér. Það er löngu tímabært að við sem Alþingi, einstakir þingmenn og flokkar, förum að hugsa framtíðina lengur en til næstu fjögurra ára. Það er óbærilegt að horfa upp á það að góð og vönduð vinna sé rakin upp eingöngu út af því að rétta fólkið kom ekki þeirri vinnu í gegn. Ég vil hvetja hæstv. fjármálaráðherra til að hafa góðan grunn að samvinnu um þessi mál hér á þingi. Ég held að það sé mjög mikilvægt til langs tíma fyrir alla. Auðvitað er það svo að við erum hér á Alþingi fyrir landsmenn alla, ekki bara fyrir kjördæmin okkar, flokkana eða hverfið.

Þetta er rosalega stórt mál. Eins og fram hefur komið skiptir miklu að unnið sé með heildarhagsmuni í huga. Ég efast ekki um að það sé markmið hæstv. fjármálaráðherra. En það er líka mjög mikilvægt að í þessu ferli verði ekki það sem kalla má „hubris“. Hann gengur út á það að viðkomandi sem fer með málaflokkinn haldi að hann einn geti leyst hann. Hér skiptir miklu máli að við gerum eins og þegar við þurftum að taka Icesave fyrir dóm, að við vinnum eindregið saman öll. Það mun skila langbestum árangri fyrir framtíð landsins og fyrir okkur öll sem hér sitjum. Þá munum við vonandi sofa ákaflega vel á næturnar ef okkur tekst að gera þetta á tilhlýðilegan máta án þess að hér fari fram (Forseti hringir.)