144. löggjafarþing — 57. fundur,  27. jan. 2015.

gjaldeyrishöft.

[14:42]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka þessa umræðu. Fyrst, vegna orða hv. þm. Frosta Sigurjónssonar, vil ég segja að það er óþarfi að vera með skens í garð minn eða síðustu ríkisstjórnar fyrir framgöngu okkar í afnámi hafta. Sú áætlun sem var unnin í minni efnahagsráðherratíð árið 2011 er sú sama og búið er að vinna að í næstum því tvö ár í tíð þessarar ríkisstjórnar. Hún hefur ekki breytt einum stafkrók í þeirri áætlun. Það er auðvitað mikil traustsyfirlýsing við það verklag sem lagt var upp með.

Ég fagna yfirlýsingu hæstv. ráðherra um samráð sem ég held að sé forsenda að lausn. Hann sagði að slitabúin hefðu ekki getað komið með lausn, það hefði tafið málin. Við getum ekki sætt okkur við það. Við hljótum að standa saman um að sætta okkur ekki við það að þau ákveði hraðann í þessu verki eða þau ákveði dagskrána en samráð hlýtur að felast í alvörusamtali. Það veit hann frá síðasta kjörtímabili og ágætt að hv. þm. Birgitta Jónsdóttir vísaði hér til samráðsins um Icesave í aðdraganda málsvarnarinnar. Það tókst vel vegna þess að menn komu þar ekki að ketinu soðnu. Allir fulltrúar stjórnarandstöðunnar fengu að eiga þátt í mótun afstöðunnar. Það er ekki samráð að boða til funda og kynna ákvarðanir sem þegar hafa verið teknar. Þess vegna er það grundvallaratriði ef menn vilja almenna pólitíska samstöðu um þetta verkefni að við komum saman að mótun afstöðunnar.

Ég vil líka undirstrika mikilvægi gagnsæis og almennra leikreglna í þessu efni. Eðli málsins samkvæmt, í ljósi þess hvernig þessir flokkar fóru með það vald sem þeir höfðu tök á við einkavæðingu bankanna á sínum tíma, þegar vildarvinum var afhent lykilaðstaða í efnahagslífinu, þá er tortryggni í samfélaginu. Það er eðlilegt að mæta henni með því að vinna þetta eins og kostur er fyrir opnum tjöldum og draga úr ótta við flokksbundna (Forseti hringir.) hrægamma sem nú voma yfir (Forseti hringir.) og eru kannski ekkert endilega mikið betri(Forseti hringir.) en erlendir hrægammar.