144. löggjafarþing — 57. fundur,  27. jan. 2015.

Stjórnarráð Íslands.

434. mál
[15:08]
Horfa

Hjálmar Bogi Hafliðason (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Menntunarstig Íslendinga hefur hækkað, samgöngur einnig og samhliða tæknibyltingu erum við þess vegna, held ég, alls staðar á Íslandi, færir um að taka við stofnunum hér og þar. Það sem ég átti við með spurningu minni: Hvernig metum við það faglega hvort Fiskistofa á að vera á Akureyri, Hafnarfirði, Höfn eða einhvers staðar annars staðar? Er til faglegt mat sem segir hvar stofnun á Íslandi á að vera? Ég held að það sé nefnilega ekki þannig. Við lítum svolítið á þennan leka sjálfsagðan á höfuðborgarsvæðið og við lítum á það sem eðlilega uppbyggingu á höfuðborgarsvæðinu.

Þess vegna vil ég spyrja þingmanninn aftur, vegna þess að mér finnst hún ekki svara spurningunni: Getum við einhvern veginn byggt faglegt mat á því hvar stofnun á að vera, óháð því hvar hún er þegar menn ætla að skoða það að flytja hana?