144. löggjafarþing — 57. fundur,  27. jan. 2015.

Stjórnarráð Íslands.

434. mál
[15:11]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðu hennar. Ég vildi spyrja hana nánar út í það sem lýtur að flutningi Fiskistofu sem var hér nokkuð til umræðu á síðastliðnu ári, en mér skilst að búið sé að slá því á frest eða slá það af eða hvernig svo sem það mál stendur núna. Mig langar að spyrja hv. þingmann aðeins út í tilurð þess máls einfaldlega vegna þess að hún er þingmaður kjördæmisins, hvort málið hafi verið rætt í hópi þingmanna Norðausturkjördæmis á meðan það var á undirbúningsstigi og áður en það var tilkynnt sem opinber ákvörðun ríkisstjórnarinnar. Með hvaða hætti var umfjöllun háttað um þetta mál fyrir norðan, í nærsamfélaginu þar?

Síðan vil ég spyrja um það frumvarp sem hér liggur fyrir ári eftir að þessar hugmyndir komu fram. Eru hér á ferðinni þær lagabreytingar sem nauðsynlegar eru til þess að orðið geti af fyrirætlunum eins og flutningi Fiskistofu? Var sá flutningur ekki heimill að gildandi lögum þegar þær yfirlýsingar voru gefnar, sem núna er búið að falla frá eða slá á frest eða hvernig svo sem það mál nú stendur hjá ríkisstjórninni? Það er heldur á reiki eins og margt annað.

Að síðustu vil ég spyrja varðandi þessar 3 millj. kr., ef ég man nú fjárhæðina rétt, sem Framsóknarflokkurinn lýsti yfir að ætti að greiða hverjum þeim sem væri tilbúinn til þess að flytja norður. Af því að hv. þingmaður situr í fjárlaganefnd, á hvaða heimildum byggja þær fjárveitingar? Hvaða umfjöllun fékk það mál í fjárlaganefnd, þ.e. varðandi heimildir í gildandi fjárlögum o.s.frv. og sömuleiðis undirbúningurinn að þeirri ákvörðun og yfirlýsingu?