144. löggjafarþing — 57. fundur,  27. jan. 2015.

Stjórnarráð Íslands.

434. mál
[15:13]
Horfa

Bjarkey Gunnarsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þetta mál var ekkert rætt í þingmannahópi þingmanna Norðurausturkjördæmis og í sjálfu sér finnst mér engin ástæða til þess. Þetta kemur ekki bara okkur við, þetta kemur miklu fleira fólki við. Það kemur mér nú á óvart og ég hafði ekki heyrt af því að búið væri að slá flutningnum á frest eða ákveða að láta ekki verða af honum.

Ég hefði viljað fara þessa leið af því að ég sé Fiskistofu alveg geta átt heima á Akureyri, það snýr ekkert að því. Ég vitna aftur til þess að Eyþing gerði vandaða skýrslu sem sneri meðal annars að Fiskistofu og lagt var að hún yrði færð á fimm ára tímabili. Það er hins vegar aðferðafræðin sem ég gagnrýni, það er það sem ég gagnrýni í þessu frumvarpi. Ég ræddi það áðan að mér fyndist ekki faglegt að gera þetta með slíkum hætti.

Nei, ég tel að það sé akkúrat það sem verið er að reyna gera hér, að klóra í bakkann, að flutningurinn hafi ekki verið heimill samkvæmt núgildandi lögum og að þess vegna sé verið að búa til ramma utan um málið. Varðandi fjárheimildirnar, eins og við ræddum töluvert um í fjárlagaumræðunni, var verið að pikka út peninga héðan og þaðan og færa á milli liða og meira að segja byggðatengdra liða til þess að mæta þeim 205 millj. kr. eða 215 millj. kr. kostnaði sem felst í því að flytja Fiskistofu. Það var því ekki rætt neitt sérstaklega, það kom bara tilkynning frá ríkisstjórninni um að svona hygðist hún leggja málið fram. Skýringarnar varðandi kostnað voru í rauninni bara flutningur á milli hinna ýmsu liða og svo var eitthvað til hjá Fiskistofu líka til þess að mæta kostnaðinum.

Ég segi því eins og annar hv. þingmaður áðan, það þurfti ekkert að múta fólki til að flytja til Akureyrar, (Forseti hringir.) … Mér fannst það því frekar taka umræðuna niður en hitt.