144. löggjafarþing — 57. fundur,  27. jan. 2015.

Stjórnarráð Íslands.

434. mál
[15:18]
Horfa

Bjarkey Gunnarsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég tek undir með hv. þingmanni varðandi flutninga stofnana út á land, að þeir skuli vera með þessum hætti og að ramminn hafi ekki verið nægilega skýr. Nú hafa borist svör við fyrirspurn frá hv. þm. Birni Val Gíslasyni um að engar stofnanir verði fluttar út á land í öllum ráðuneytum, það standi ekki til þannig að ég veit ekki hvort þetta á að vera einsdæmi hjá þessari ríkisstjórn. Því spyr maður sig auðvitað hver ástæðan sé fyrir því að hún þurfi að gera þetta, en kannski á aðeins að flytja þessa tilteknu stofnun eina og sér.

Ég geri mér líka grein fyrir því og tek undir það sem sagt hefur verið að opinber störf stoppa of stutt úti á landi. Þau eru gjarnan skorin fyrst af, eins og ég sagði í ræðu minni áðan, frekar en að reynt sé að koma í veg fyrir það, eins og ákvörðun varðandi fjárframlag til Vinnumálastofnunar eða Matís eða hvað það nú er sem verður til þess að einyrkjastörf eða tveggja manna störf einhvers staðar eru lögð af. Störfum er hlutfallslega mun minna fækkað hér á höfuðborgarsvæðinu. Ég ætla ekki að segja aldrei vegna þess að það er líka skorið niður hér. En hér er um auðugan garð að gresja, að minnsta kosti mun meira en mjög víða úti á landsbyggðinni þegar kemur að störfum.

Varðandi siðareglurnar þá kom ég einmitt inn á það áðan. Mér finnst mjög varhugavert að ráðherrar þurfi minna að skrá samskipti og þeir skrá nánast bara það sem þeim þykir tilhlýðilegt en ekki tveggja manna tal eða eitthvað slíkt. Það sýndi sig akkúrat núna. Ég tek undir með hv. þingmanni, ég dreg þá ályktun að við ættum að auka skráninguna á milli starfsmanna hvað það varðar frekar en hitt. En hins vegar er lögð áhersla á að skrá samskipti (Forseti hringir.) við fólk úti í bæ en ekki innan stofnana.